Steingrímur með dónaskap Steingrímur Jóhannesson, leikmaður Fylkis, sýndi stuðningsmönnum Fram mikla óvirðingu þegar hann skoraði í 3-3 leiknum í gær. Hann beraði framan í þá afturendann. Steingrímur hafði nýverið jafnað leikinn fyrir Fylki og hljóp hann beint að stuðningsmönnum Fram og múnaði framan í þá. Í stúkunni var talsvert um fjölskyldufólk og þykir framkoma Steingríms því alls ekki til fyrirmyndar og vænta stuðningsmenn Fram þess að stjórn og leikmenn Fylkis, ekki síst Steingrímur sjálfur, biðjist afsökunar á þessu framferði sínu.

Að mínu mati er þessi framkoma algjörlega til skammar og væri gaman að vita hvað stuðningsmönnum Fylkis finnst um þetta. Finnst þeim þetta kannski “bara snilld” og “rosalega sniðugt” eða geta þeir tekið undir þá skoðun mína að svona hegði fullvaxta karlmenn sig ekki nema eitthvað vanti í kollinn á þeim. Ég hef ekki haft mjög mikið álit á Steingrími sem knattspyrnumanni og það er alveg ljóst að það á ekki eftir að batna eftir þetta.

Samkvæmt Fram.is þá voru reyndar stuðningsmenn Fram sammála um að þeir hefðu oft séð fallegri kinnar en þær sem Steingrímur Jóhannesson beraði á Fylkisvellinum í gær!