Frábær árangur íslenska kvennalandsliðsins Íslenska kvennalandsliðið mætti Spáni í undankeppni Heimsmeistaramótsins. Íslenska liðið vann glæsilegan 3-0 sigur þar sem Edda Garðarsdóttir og Olga Færseth fóru á kostum en reyndar stóðu allar stelpurnar sig mjög vel. Met var slegið þegar u.þ.b. 2.500 áhorfendur mættu á kvennalandsleikinn. Í hálfleik var markalaust en í upphafi seinni hálfleiks brutu Íslendingar ísinn eftir góða sókn þegar Ásthildur Helgadóttir þrumaði í Guðlaugu Jónsdóttur en af henni fór boltinn í varnarmann og inn. Margrét Ólafsdóttir átti heiðurinn að marki númer tvö en aftur fór boltinn í varnarmann og inn og skráist því sjálfsmark. Ásthildur skoraði svo þriðja markið með skalla eftir góða sendingu Rósu Steinþórsdóttur. Vörn íslenska liðsins var ótrúlega sterk og greinilegt að liðið er á hörkusiglingu um þessar mundir. Sigurinn er ekki síst sætur fyrir þær sakir að Spánverjarnir unnu stórsigur í fyrri leik liðanna á Spáni. Eftir viku leika stelpurnar okkar við lið Ítalíu og ef þær vinna þann leik spila þær tvo aukaleiki um laust sæti á heimsmeistaramótinu. Nú krossleggjum við fingur!