Stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Cheltenham staðfesti í dag að félagið hefði gefið knattspyrnustjóra sínum, Steve Cotterill, leyfi til að ræða við Stoke City. Hann sagði ennfremur að Wimbledon hefði einnig óskað eftir því að fá að ræða við Cotterill en líklegast væri að hann tæki boði Stoke.
“Bæði félögin höfðu samband við okkur og við gáfum Steve leyfi til að tala við þau. Við höfum alltaf sagt að við munum ekki standa í vegi hans ef hann fær tilboð úr efri deildunum, eftir þá frábæru vinnu sem hann hefur skilað okkur. Ég er í stöðugu sambandi við Steve og get staðfest að hann er að íhuga tilboð um að taka að sér stöðu knattspyrnustjóra Stoke City. Við viljum að stuðningsmenn fái að vita allt um stöðu mála og reikna með því að gefin verði út yfirlýsing um málið um hádegi á mánudag,” sagði Paul Baker, stjórnarformaður Cheltenham, á heimasíðu félagsins.
Steve Cotterill hefur náð frábærum árangri með Cheltenham. Þegar hann tók við liðinu fyrir fimm árum var það í lágt skrifaðri utandeild, tveimur deildum fyrir neðan 3. deildina, en er nú búinn að koma því upp í 2. deild, sömu deild og Stoke var að vinna sig upp úr.