AUGNABLIK 20 ÁRA
Knattspyrnufélagið sérstaka, Augnablik, fagnar 20 ára afmæli sínu um þessar mundir. Liðið spilaði í neðstu deild í mörg ár enda skýrt tekið fram í lögum félagsins að það mætti ekki fara upp um deild. Til að fagna þessum tímamótum hafa þeir skorað á íslenska landsliðið eins og því var teflt fram árið 1982, að mæta úrvalsliði félagsins. Leikurinn fer fram í Fífunni á morgun, kosningadaginn, kl. 18.00. Aðgangur er ókeypis og er vert að hvetja alla til að sjá Ásgeir Sigurvinsson, Atla Eðvaldsson, Arnór Guðjohnsen og fleiri kunna kappa. Um kvöldið ætla síðan Augnabliksmenn og konur að lyfta sér upp í Smáranum og eru allir gamlir leikmenn og velunnarar félagsins velkomnir.
—
LEIK KR OG ÞÓRS BREYTT
Leik KA og Þórs í Símadeild karla hefur verið breytt vegna beinnar sjónvarpsútsendingar. Hann verður Fimmtudaginn 30. maí kl. 20:00 á Akureyrarvelli. Einum sólarhring seinna en áætlað var.
—
FH FÆR LIÐSSTYRK
FH-ingar hafa gert samning við litháíska sóknarmanninn Valdas Trakys. Hann er 24 ára gamall og á 10 landsleiki að baki fyrir Litháa. Hann verður þó ekki með í leiknum við Þór á morgun. Trakys hefur síðustu árin leikið með Torpedo frá Moskvu í úrvalsdeildinni í Rússlandi en þar spilaði hann 21 deildaleik með liðinu árið 2000 og skoraði tvö mörk. Tímabilið 1998-99 skoraði Trakys 13 mörk í 23 leikjum fyrir FBK Kaunas í úrvalsdeildinni í Litháen.
—
MARKVARÐARMISTÖK
Semb, landsliðsþjálfari Noregs, sagði að mistök markvarðarins Myhre gegn Íslendingum hefðu eyðilagt leikinn. Úrslitin urðu 1-1 og áttu mistökin sér stað þegar Jóhannes Karl skoraði af löööngu færi. “Svona lagað á ekki að geta gerst. Vanalega nuddar maður augun af vantrú þegar leikmaður skorar af um 30 metra færi - að þessu sinni var færið nær 50 metrum. Mistökin gerðu það að verkum að íslenska liðið lagði áherslu á að halda fengnum hlut og leikurinn varð því ekki eins spennandi og ætla mátti” sagði landsliðsþjálfarinn. Aðalpersónan sjálf, hinn 28 ára gamli Thomas Myhre, sagði að hann hefði nú gert stærri mistök en tók þó alla sökina á sig.
—
STÓRLEIKUR Í KVÖLD
Önnur umferð Símadeildarinnar hefst í kvöld með sannkölluðum stórleik en þá mætast í Frostaskjólinu KR-ingar og Íslandsmeistarar ÍA. KR-ingar fóru vel af stað í fyrstu umferðinni - gerðu 2-2 jafntefli við Grindavík í leik sem þeir voru betri aðilinn í en Akurnesingar máttu sætta sig við tap á heimavelli gegn nýliðum Þórs. Leikurinn verður í beinni á Sýn.
—
100 MÖRK HJÁ ÁSTHILDI
Ásthildur Helgadóttir skoraði sitt 100. mark í efstu deild kvenna í knattspyrnu í þegar KR sigraði Þór/KA/KS, 6-0, í fyrstu umferð deildarinnar á Akureyri. Ásthildur er fimmta konan frá upphafi sem nær þessum áfanga. Önnur úrslit í fyrstu umferð urðu þau að Valur vann FH 3-1, Grindavík tapaði fyrir Stjörnunni 0-3 og Breiðablik sigraði ÍBV 3-2.
—
KVENNALANDSLIÐIÐ ÓBREYTT
Jörundur Áki Sveinsson tilkynnti í gær hóp sinn fyrir HM-leikinn gegn Spáni á Kópavogsvelli næst fimmtudag. Hópinn skipa sömu 16 leikmenn og fóru til Rússlands á dögunum.
—