Í gær fór fram fyrsta umferð Símadeildarinnar og var nóg af jafnteflum. Ég brá mér til Keflavíkur og sá heimamenn merja jafntefli við Fram (voru reyndar nálægt því að ræna sigrinum undir lokin). Adolf Sveinsson sá til þess að Keflavík hafði forystu í hálfleik en eftir hlé þá sóttu Framarar látlaust að marki Keflvíkinga en uppskáru aðeins eitt mark sem Þorbjörn Atli skoraði eftir að Ágúst Gylfason skaut í slá úr aukaspyrn. Þorbjörn fékk síðar dauðafæri en Ómar náði með naumindum að verja. Úrslitin 1-1.
Íslandsmeistarar ÍA fengu Þór frá Akureyri í heimsókn í fyrsta leik. Gestirnir treystu á skyndisóknirnar og það virkaði því Hörður Rúnarsson skoraði eina mark leiksins fyrir Þór. Hlynur Birgisson var traustur í sterkri vörn þeirra og Skagamenn náðu ekki að skora þrátt fyrir að hafa átt mun fleiri marktilraunir en Þórsarar. Það veikti greinilega liðið að Gunnlaugur Jónsson var fjarri góðu gamni sökum leikbanns.
Fylkir vann öruggan sigur á FH, 3-0 á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika. Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleiknum, Sævar Þór Gíslason gerði tvö þau fyrstu og Björn Viðar Ásbjörnsson skoraði þriðja markið. Það kom á óvart að ekki var meira jafnræði með liðunum og greinilegt að Hafnfirðingar komu ekki nógu ákveðnir til leiks. Það var gaman að sjá að þjálfarar liðanna í fyrra, Bjarni Jóhannesson og Logi Ólafsson, stóðu hlið við hlið meðan þeir fylgdust með gangi mála. FH er nú að skoða 24 ára gamlan litháískan sóknarmann. Leikmaðurinn heitir Valdas Trakys og á hann að baki 10 landsleiki fyrir Litháen.
Atli Knútsson stóð í marki Grindvíkinga í leiknum á móti KR í Frostaskjóli. Paul McShane kom Grindavík yfir á 10. mínútu með skoti af stuttu færi eftir fyrigjöf Grétars Hjartarsonar. Fyrsta mark sumarsins. Sigurvin Ólafsson jafnaði metin fyrir KR en Óli Stefán Flóventsson var felldur innan vítateigs og úr vítaspyrnunni sem dæmd var skoraði Ólafur Örn Bjarnason á 28. mínútu. Sigurður Ragnar Eyjólfsson skoraði svo eftir sendingu frá Einari Þór Daníelssyni og jafnaði 2-2. Bæði lið eru til alls líkleg í sumar.
Markalaust var í hálfleik á Akureyri þar sem KA og ÍBV áttust við. KA menn áttu tvö góð færi undir lok hálfleiksins en Birkir Kristinsson sá við heimamönnum í bæði skiptin. Þorvaldur Makan Sigbjörnsson kom nýliðum KA yfir á 48. mínútu þegar hann skoraði með skalla eftir hornspyrnu Dean Martins. Gunnar Heiðar Þorvaldsson jafnaði metin fyrir ÍBV gegn KA á 87. mínútu eftir sendingu frá Inga Sigurðssyni og þar við sat.
Keflavík - Fram 1-1
1-0 Adolf Sveinsson
1-1 Þorbjörn Atli Sveinsson
ÍA - Þór 0-1
0-1 Hörður Rúnarsson
FH - Fylkir 0-3
0-1 Sævar Þór Gíslason
0-2 Sævar Þór Gíslason
0-3 Björn Viðar Ásbjörnsson
KR - Grindavík 2-2
0-1 Paul McShane
1-1 Sigurvin Ólafsson
1-2 Ólafur Örn Bjarnason (v)
2-2 Sigurður Ragnar Eyjólfsson
KA - ÍBV 1-1
1-0 Þorvaldur Makan
1-1 Gunnar Heiðar Þorvaldsson