Ronaldo til Manchester United?? Þessi grein birtist á www.sportid.is í gær:

Brasilíski snillingurinn Ronaldo er sennilega á förum frá ítalska stórveldinu Inter Milan og líklegur áfangastaður kappans er talinn vera England þar sem bíður hans ekki minna lið en Manchester United.

Ronaldo er á mála hjá íþróttavörumerkinu Nike og yfirmenn Nike risans vilja ólmir fá brasilísku stórstjörnuna til liðs við Manchester United þar sem þeir telja hann munu auglýsa Nike merkið mun meira og betur þar en hjá Inter. Nike er sagt tilbúið til að borga Inter þá fjárhæð sem þeir krefjast til að losa Ronaldo undan samningi. Þar sem Massimo Moratti, forseti Inter Milan, hefur ítrekað gefið í skyn að Ronaldo verði seldur þykir alls ekki ólíklegt að af flutningi hans til Manchester United verði.

Ronaldo hefur átt við erfið og þrálát hnémeiðsli að stríða síðan læknar brasilíska landsliðsins gerðu þau afdrifaríku mistök að sprauta deyfilyfi í vitlaust hné hans á HM '98 í Frakklandi. Síðan hann gekk til liðs við Inter frá Barcelona hefur hann átt í stökustu vandræðum og mun Moratti vera orðinn þreyttur á því og bauð meðal annars Rómarliðinu AS að skipta á honum og Vincenzo Montella, en Roma hafnaði því. Einnig hefur leikmaðurinn verið orðaður við brasilísk félagslið, þar á meðal Flamengo og Cruzeiro, þar sem hann hóf ferilinn.

Forráðamenn Manchester United munu vera mjög spenntir fyrir þessu freistandi tilboði þar sem fjárhagsstaða félagsins er ekki eins og best verður á kosið, ekki síst sökum sektar upp á 13 milljónir punda vegna brots á samkeppnisreglum fyrir skömmu.

Verði af félagsskiptunum munum við væntanlega sjá framlínu skipaða Ronaldo og Ruud van Nistelrooy á næstu leiktíð hjá Manchester United og það verður að teljast nokkuð ljóst að þá framlínu verður erfitt fyrir varnarmenn við að etja.