Jörundur, landsliðsþjálfari kvenna, er í hæstu hæðum vegna jafnteflisins sem liðið gerði við Rússa í undankeppni HM í Rússlandi í dag. Rússastúlkur komust yfir skömmu eftir leikhlé en engin önnur en Olga Færseth janfaði er átta mínútur voru eftir. Alveg eins úrslit og á KR-vellinum í fyrra, 1-1. “Þetta sýnir hvað hægt er að gera. Við vorum nær því að sigra en heimamenn sem fengu bara þetta eina færi sem þeir skoruðu úr. Við fengum hins vegar ein 2-3 færi sem við hefðum getað skorað og svo kom auðvitað Olga og jafnaði, en hún er markaskorari af guðsnáð” sagði Jörundur Áki um leikinn í samtali við mbl.is.
Rússar halda forystunni í riðlinum, eru með 8 stig eftir 5 leiki, Spánverjar eru með 6 eftir 5 leiki og Ítalir 6 eftir fjóra leiki. Íslensku stúlkurnar eru með 5 stig eftir fjóra leiki og taka á móti Spánverjum 30. maí og mæta síðan Ítölum 8. júní ytra.
—
Keppni í Símadeild kvenna hefst á miðvikudag með fjórum leikjum. Klukkan 19 mætast Þór/KA/KS - KR á Akureyrarvelli og Breiðablik - ÍBV í Kópavoginum. Klukkutíma síðar hefjast leikirnir Grindavík - Stjarnan og Valur - FH. Nú í vikunni hittust þjálfarar og fyrirliðar liðanna og spáðu í sumarið. Það verður að teljast mjög líklegt að KR-stúlkur verði meistarar.
Spáin:
1.KR 186
2.Valur 154
3.Breiðablik 151
4.ÍBV 117
5.Stjarnan 104
6.FH 71
7.Þór/KA/KS 45
8.Grindavík 36