Það er alveg ljóst að okkar “ástkæra” Ríkissjónvarp er algjörlega að klúðra öllu um þessar mundir. Það er spurning hvað þessi stöð ætlar að gera við íþróttadeildina sína á meðan ekkert íþróttaefni er á RÚV fyrir utan Formúluna (sem íþróttadeildin sér ekki einu sinni um). Í gær keypti sjónvarpsstöðin Sýn sjónvarpsréttinn á Símadeild karla í knattspyrnu af þýska fjölmiðlafyrirtækinu Sport 5 til næstu tveggja ára. Ákveðið hefur verið að Sýn verður með beinar útsendingar frá öllum umferðum Símadeildarinnar í sumar. Einkarétturinn þýðir þó ekki að RÚV megi ekki sýna frá Símadeildinni því RÚV má vera með upptökuvélar á leikjum og sýna mörkin úr leikjunum í fréttatímum.
Sýn sýnir nú frá ensku, spænsku, ítölsku og íslensku knattspyrnunni auk Meistaradeildar Evrópu og sjálfri Heimsmeistarakeppninni í fótbolta sem verður í sumar. Stöð sem allir knattspyrnuaðdáendur verða að vera með. Þeir verða reyndar líka að vera með RÚV þar sem það er skylda. Fyrsta beina útsendingin frá Símadeildinni á Sýn verður viðureign FH og Fylkis á mánudaginn þegar fyrsta umferðin verður leikin.