FH og Fylkir léku til úrslita í Deildabikarkeppni KSÍ í gærkvöld í hinni risastóru og stórglæsilegu Egilshöll. Ég lagði af stað upp í höll um kl.20:30 en þá hófst leikurinn og ég missti af fyrstu tíu mínútum. Á leiðinni hlustaði ég á beina lýsingu á Útvarpi Sögu og var nýkominn upp í bílinn þegar Björn Viðar Ásbjörnsson kom Fylki yfir strax á annari mínútu leiksins. Síðan var leitað af stæði og meðan sú leit fór fram þá jafnaði Jón Þorgrímur Stefánsson fyrir FH. Ég varð þó vitni að því þegar Jónas Grani Garðarsson kom FH yfir á 20. mínútu. Svo leið fyrri hálfleikurinn og Hafnfirðingar betri aðilinn. En í seinni hálfleik tóku Fylkismenn öll völd á vellinum og jafnaði Finnur Kolbeinsson á 58. mínútu. Fylkir fékk síðan fjölda færa til að tryggja sér sigurinn sem ekki nýttust, Jakob Hallgeirsson áti m.a. skot í slá. FH -ingar fengu líka nokkur færi og þar á meðal eitt dauðafæri en Ásgeir Gunnar Ásgeirsson skaut boltanum í stöngina.
Framlengingin var markalaus og frekar leiðinleg. Staðan 2-2 eftir venjulegan leiktíma og framlenginu. Því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni þar sem Daði Lárusson, markvörður FH, var í aðalhlutverki því hann varði tvær spyrnur Fylkismanna á meðan Kjartan Sturluson, markvörður Fylkis, varði eina. Jónas Grani Garðarsson skoraði úr síðustu spyrnunni og tryggði FH bikarinn. Leikurinn lofar góðu fyrir sumarið en um 1.200 manns fylgdust með honum.