Eftir að hafa kíkt í Sjónvarpshandbókina í gærkvöld komst ég að því að það var ekkert í sjónvarpinu sem gaman væri að horfa á. Því ákvað ég að skella mér á undanúrslitaleik FH og Breiðabliks í Deildarbikarnum þrátt fyrir að ég styðji hvorugt liðið. Ég rataði í þessa nýju Egilshöll sem Ingibjörg var svo fljót að opna, núna rétt fyrir kosningar. Þegar ég kom var staðan orðin 1-0 fyrir FH. Það var Heimir Guðjónsson sem kom þeim yfir. Ég var ekki mikið að pæla í þessum leik, heldur aðallega í þessu svakalega mannvirki sem þessi höll er. Gervigrasið lítur vægast sagt vel út og ég hef heyrt það frá mönnum sem hafa spilað á þessu grasi að það sé jafngott og það lítur út fyrir að vera, ef ekki betra. Það var furðuleg tilfinning að horfa á fótboltaleik í þessari höll. En nóg um það og aðeins meira um þennan leik. Kjartan Einarsson jafnaði úr vítaspyrnu fyrir Blikana og Steinþór Þorsteinsson skoraði annað markið skömmu síðar, sanngjörn staða. Sigmundur Ástþórsson jafnaði í 2-2 fyrir FH svo grípa þurfti til framlengingar. Þar var mikið um að vera og kom Kristján Óli Sigurðsso Breiðablik yfir á 102. mínútu, Jónas Grani Garðarsson jafnaði mínútu síðar og Sigmundur varð síðan hetja FH-inga þegar hann skoraði fimm mínútum fyrir lok framlengingarinnar, 4-3, og tryggði FH í úrslitaleikinn.
Fyrr um kvöldið mættust Fylkir og ÍA í hinum undanúrslitaleiknum. Fylkir sigraði Íslandsmeistarana í framlengdum leik, 2-1. Upp úr sauð skömmu fyrir leikslok í leik Fylksimanna og Skagamanna. Leikmönnum laust saman sem endaði með því að Gylfi Orrason dómari vísaði Skagamanninum Hirti Hjartarsyni og Sævari Þór Gíslasyni, Fylki, af leikvelli og verður Sævar því í banni í úrslitaleiknum.
Ellert Jón Björnsson kom Skagamönnum yfir á 57. mínútu en Sævar Þór Gíslason jafnaði metin fimm mínútum fyrir leikslok og tyggði Árbæjarliðinu framlengingu. Hún var ekki nema einnar mínútu gömul þegar Finnur Kolbeinsson, fyrirliði Fylkis, tryggði sínum mönnum sigurinn með skoti af stuttu færi. FH og Fylkir leika því til úrslita í Deildabikarnum, þriðjudaginn 7.Maí í Egilshöll. Eftir þetta get ég ekki beðið eftir því að Íslandsmótið hefjist. Svo styttist óðum í HM þannig að það er stórskemmtilegt fótboltasumar framundan.