STÓRMÓT Á ÍSLANDI NÆSTA SUMAR(?)
Af fotbolti.net:
Hugmyndir eru uppi um að halda Old-Boys mót á Íslandi næsta sumar. Hugsanleg lið eru Manchester United, Liverpool, Everton, Real Madrid, Fylkir og fleiri. Sýnt verður frá mótinu í gegnum Eurosport ef af verður. Möguleikarnir á að af mótinu verði eru taldir vera 90%. Meðal manna sem væru þá væntanlegir til landsins eru Eric Cantona, Ian Rush, John Barnes, Phil Thompson og fleiri. Hugsanlegur keppnisstaður er Egilshöllin nýja í Grafarvoginum. Meiri fréttir síðar. Þeir á fotbolti.net segjast hafa mjög staðfestar heimildir fyrir þessu!



FYRRUM LEIKMAÐUR KEFLAVÍKUR LÁTINN
Fyrir örfáum dögum lést Liam O´Sullivan, fyrrum leikmaður með Keflavík og atvinnuknattspyrnumaður hjá Hibernian í Skotlandi. Hann var aðeins tvítugur að aldri. Breskir fjölmiðlar segja að talið sé að neysla áfengis og alsælu hafi leitt til dauða hans en hann fannst látinn í íbúð vinar síns. O´Sullivan lék með Keflavík frá maí og fram í júlí árið 2000. Hann þótti bráðefnilegur varnarmaður og gerði fyrir skömmu fimm ára samning við Hibernian. Alex McLeish, fyrrum stjóri Hibernian, sagði að O’Sullivan hefði verið einn efnilegasti varnarmaður í Skotlandi og hefði átt bjarta framtíð fyrir höndum í knattspyrnunni.



BÁÐIR UNDANÚRSLITALEIKIRNIR Á MORGUN
Báðir undanúrslitaleikir í Efri deild Deildarbikars karla munu fara fram á morgun í Egilshöll. Áður hafði verið ákveðið að leikirnir færi fram 2. og 3. maí, en því hefur nú verið breytt og fara báðir leikirnir fram sama dag. Í fyrri leiknum mætast ÍA og Fylkir, en í þeim síðari FH og Breiðablik.



SIGURSTEINN MISSIR AF FYRSTU LEIKJUNUM
Sigursteinn Gíslason, hinn leikreyndi leikmaður KR-inga í knattspyrnu, reiknar með að missa af fyrstu þremur til fjórum umferðunum á Íslandsmótinu. Sigursteinn gekkst undir aðgerð fyrir skömmu þegar í ljós kom að vöðvi í nára var rifinn en hann gekkst undir samskonar aðgerð árið 1997. Það tekur Sigurstein fimm til sjö vikur að jafna sig af meiðslunum. Flautað verður til leiks á Íslandsmótinu 20. maí og í fyrstu þremur umferðum mótsins leika KR-ingar við Grindavíkinga, Akurnesinga og FH-inga.



DÓMARARNIR TILBÚNIR
Íslenskir knattspyrnudómarar hafa aldrei komið jafn vel undirbúnir til leiks og fyrir komandi Íslandsmót. Það er mat Halldórs B. Jónssonar, varaformanns KSÍ og formanns dómaranefndar, eftir hina árlegu ráðstefnu landsdómara sem haldin var í Reykjavík um síðustu helgi. “Það kom í ljós í þrekprófinu sem dómararnir gengust undir um helgina að þeir eru afar vel á sig komnir og tilbúnir í slaginn í sumar” sagði Halldór.



DEIGLAN
Þeir Alexander Högnason og Sævar Pétursson hafa ákveðið að ganga til liðs við Deigluna og leika undir merkjum félagsins í sumar.
Alexander er einn af reyndustu knattspyrnumönnum landsins og margfaldur Íslandsmeistari með liði ÍA. Hann lék með liði Fylkis í fyrra en hefur nú ákveðið að söðla um. Sævar Pétursson hefur um langt árabil leikið með liðum í efstu deild. Hann hefur lengst af leikið með Breiðabliki, en einnig með Val og Fram. Í síðustu viku gekk Bjarki Gunnlaugsson, fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, til liðs við Deigluna úr enska 1. deildarliðinu Preston North End. Að sögn Borgars Þórs Einarssonar, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar, munu þessir þrír leikmenn koma til með styrkja leikmannahóp Deiglunnar verulega “Við erum að sjálfsögðu ekki hættir að styrkja liðið. Það er ýmislegt í deiglunni en ég get því miður ekki greint frá einstökum nöfnum á þessu stigi,” sagði framkvæmdastjórinn.



STJARNAN FÆR LIÐSSTYRK
Vilhjálmur R. Vilhjálmsson knattspyrnumaður er genginn til liðs við Stjörnuna á ný. Vilhjálmur lék með Garðabæjarliðinu í fyrra en spilaði seinni hluta vetrar með Xiang Xue frá Kína í úrvalsdeildinni í Hong Kong.


Fengið af: fotbolti.net, mbl.is og deiglan.net