Það hefur verið nóg að gera á Eggerti Magnússyni og félögum hjá KSÍ að undanförnu. Eggert, formaður Knattspyrnusambands Íslands, var í gær kjörinn í framkvæmdastjórn UEFA til fjögurra ára. Eggert varð ásamt Michel Platini í 3.-4. sæti af þeim fjórtán sem gáfu kost á sér í þau sjö sæti sem í boði voru, og fékk hann tilskilinn atkvæðafjölda strax í fyrstu umferð kjörsins. “Fyrst og fremst lít ég á kjör mitt sem sigur fyrir íslenska knattspyrnu,” sagði Eggert í samtali við Morgunblaðið. Eggert fékk 28 atkvæði en til að ná kjöri þurfi að fá 26 af 51. Í fyrstu umferð fékk Angel Maria Villar Llona frá Spáni 38 atkvæði, Senes Erzik frá Tyrklandi 31, Michel Platini frá Frakklandi og Eggert 28 atkvæði hvor. Lennart Johansson frá Svíþjóð var endurkjörinn forseti UEFA til næstu fjögurra ára.
Svo var nýja knattspyrnuhúsið í Grafarvogi vígt í gær. Um er að ræða stærsta íþróttamannvirki á landinu. Húsið hlaut nafnið Egilshöll. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri tók fyrstu spyrnuna í húsinu og markaði hún upphafið að leik liðanna Ellert Grand Stars og Ómar All Stars. Liðin, sem samanstanda annars vegar af gömlu knattspyrnukempum undir stjórn Ellert Schram, forseta ÍSÍ, og hins vegar af frægu fólki undir stjórn Ómars Ragnarssonar, léku í tvisvar sinnum tíu mínútur. Ingibjörg borgarstjóri ávarpaði gesti.