Robbie Savage leikmaður Leicester er í rannsókn hjá enska knattspyrnusambandinu eftir að hafa notað klósett dómarans í leik Leicester og Aston Villa á laugardag. Graham Poll, dómari leiksins, setti atvikið í leikskýrslu eftir leikinn.
Savage hafði fengið magakveisu væntanlega vegna sýklalyfja sem hann er á út af ökklameiðslum. Þar sem klósettið í búningsherbergi Leicester var upptekið notaði hann klósettið í dómaraherberginu.
Þegar Poll dómari kom að honum hlógu þeir að þessu, en þegar eftirlitsdómarinn gekk inn breyttist andrúmsloftið.
Savage var hissa á að Poll skyldi skrá atvikið í leikskýrsluna en Poll dómari segir í skýrslunni að Savage hafi skilið klósettdyrnar eftir opnar, gert dónalegar athugasemdir og hafi ekki þvegið á sér hendurnar heldur þurrkað þeim í jakka eftirlitsdómarans.
Savage neitar ásökununum en Leicester hótar að sekta hann um 50 þúsund pund.