Valur varð í gær Reykjavíkurmeistari í meistaraflokki kvenna í knattspyrnu. Valskonur biðu reyndar lægri hlut fyrir KR, 2-1, í lokaleik mótsins en fögnuðu sigri í mótinu þar sem KR hefði þurft að vinna leikinn með tveggja marka mun til að hreppa titilinn.
Útlitið var gott hjá KR-konum í hálfleik en þá var staðan 2-0, þeim í hag, og það hefði dugað þeim til sigurs í mótinu. Hrefna Jóhannesdóttir og Olga Færseth skoruðu mörkin. En um miðjan síðari hálfleik svaraði Ásgerður H. Ingibergsdóttir fyrir Val og það mark reyndist tryggja Hlíðarendaliðinu efsta sætið.
Valur, KR og Stjarnan fengu reyndar öll 6 stig í Efri deild, en Stjarnan og Breiðablik tóku þátt sem gestalið í mótinu. Breiðablik fékk ekkert stig. Mótið er nú með nýju fyrirkomulagi, Efri og Neðri deild. FH og Haukar tóku þátt í Neðri deild sem gestalið, en alls taka 10 lið þátt í deildunum tveimur.