GRINDAVÍK Í EVRÓPUKEPPNI?
Góðar líkur eru á því að Grindvíkingar verði í hattinum í lok maí þegar dregið verður um tvö laus sæti í Evrópukeppni félagsliða keppnistímabilið 2002/2003 á grundvelli háttvísimats UEFA. Ísland er sem stendur í sjötta sæti með einkunnina 8,144 úr þeim 38 leikjum sem íslensk lið hafa leikið í keppnum á vegum UEFA frá því í júní 2001. Aðeins tveir leikir eiga eftir að telja í einkunn Íslands, en það eru leikir A landsliðs kvenna gegn Rússum (18. maí) og Spánverjum (30. maí) í undankeppni HM.
—
VALUR FÆR LIÐSSTYRK
Arnór Gunnarsson, knattspyrnumaður úr ÍR, hefur gengið til liðs við 1. deildarlið Vals. Arnór hefur leikið með ÍR-ingum í þrjú ár en með Val fram að því og hann spilaði 7 leiki með Hlíðarendaliðinu í úrvalsdeildinni árið 1998.
—
ÍBV BYGGIR UPP
Fjórir ungir strákar hafa ákveðið að skipta yfir í ÍBV. Um er að ræða unga og efnilega stráka sem fyrst um sinn munu væntanlega spreyta sig með 2. flokki liðsins. Tveir strákarnir, Ólafur Ágústsson og Egill Þorsteinsson koma frá Huginn, Seyðisfirði en einnig má geta þess að annar ungur leikmaður, Birkir Pálsson, gekk til liðs við ÍBV frá liðinu fyrir síðustu leiktíð. Ólafur er ungur og efnilegur markvörður fæddur árið 1983 en Egill er miðvörður og fæddur árið 1985. Þá hefur Hafþór Atli Rúnarsson ákveðið að ganga til liðs við ÍBV í sumar en hann er einnig fæddur árið 1983 og hefur verið búsettur í Noregi. Fjórði leikmaðurinn kemur frá Skotlandi og heitir Kevin Barr (1983) og er bróðir Michelle Barr sem lék með meistaraflokki ÍBV kvenna síðastliðið sumar.
—
SANTOS KEMUR Á MORGUN
Alexandre Barreto Dos Santos er væntanlegur til landsins á morgun. Santos hefur leikið með Leiftri undanfarin ár en spilar með Þórsurum í sumar. Santos skoraði mikið seinni hluta fyrra sumars fyrir Leiftur og vonandi kemur hann skriði á markaskorun Þórs sem ekki hefur farið mikið fyrir undanfarið.