Allt um Bayer  04 Leverkusen Velgengni þýska liðsins Bayer 04 Leverkusen í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð hefur komið mörgum á óvart. Í raun er kannski óþarfi að vera undrandi á árangri þessa liðs, sem hefur á að skipa nokkrum frábærum einstaklingum og er með mjög sterka liðsheild. Liðið hefur verið á toppi Bundesligunnar í þó nokkurn tíma auk þess sem liðið er komið í úrslit þýska bikarins, þannig að það má segja að það stefni að því að vinna þrefalt.
Þjálfarinn, Klaus Toppmöller, er á fyrstu leiktíð sinni með félagið, en hann tók við seinasta voru eftir að Berti Vogts, fyrrverandi landsliðsþjálfari Þjóðverja og núverandi landsliðsþjálfari Skota, var rekinn.
Það hefur síður en svo ríkt lognmolla í kringum Leverkusen liðið seinustu keppnistímabil. Eftir EM 2000 stóð til að þáverandi þjálfari liðsins, Chrisoph Daum, tæki við þýska landsliðinu. Til þess kom þó aldrei. Hinn mjög svo kjaftfori framkvæmdastjóri Bayern München, Uli Höneß, lýsti því yfir að Daum væri eiturlyfjafíkill og til þess að afsanna það ákvað Daum að gangast undir rannsókn. Hún staðfesti orð Ulis og Daum var ákværður fyrir fíkniefnamisnotkun. Hann flúði til Bandaríkjanna, en er nú hjá Besiktas í Tyrklandi. Rudi Völler, framkvæmdastjóri Leverkusen, tók við stöðu landsliðsþjálfara og Berti Vogts var ráðinn til Leverkusen.
Söguágrip:Í nóvember 1903 gekk undirskriftalisti á milli starfsmanna Bayer lyfjaverksmiðjanna þar sem skorað var á forráðamenn verksmiðjanna að stofna fótboltalið fyrir starfsmenn félagsins. Það gekk upp og þann 1. júní 1904 var knattspyrnufélagið stofnað. Árið 1928 var síðan stofnað íþróttafélagið, Bayer 04, en innan vébanda þess var knattspyrnudeild, boxdeild, handboltadeild, og frjálsíþróttadeild. Liðið vann sig upp í aðra deild árið 1974 og fimm árum síðan komst það upp í efstu deild.
Árið 1984 voru Sporting Club Bayer 04 og TuS04 sameinuð í TSV Bayer 04 Leverkusen. Árið 1997 endaði liðið í öðru sæti Bundesligunnar og vann sér sæti í Meistaradeild Evrópu.

Leikkerfi: Liðið getur auðveldlega flakkað á milli uppstillinga eftir því sem hentar hverju sinni. 3-5-2, 4-4-2, 5-3-2, en oftast spilar liðið 4-4-1-1. Liðið sækir mikið upp vinstri kantinn í gegnum hinn bráðskemmtilega Ze Roberto, sem sér um að koma boltanum fyrir markið inn á þá helst Kirsten, eða Ballack.

Helsti veikleiki: Liðið er sóknarlið og það virðist auðvelt að lokka liðið það framarlega að lítið er um varnir þegar sótt er hratt á það, þar sem mikið bil virðist myndast á milli varnar og miðju. Þetta sást í leik liðsins gegn Arsenal fyrr í vetur og þetta sást í raun aftur í síðari leik fjórðungsúrslitanna gegn Liverpool. Þá hættu Þjóðverjarnir sér oft full framarlega og einungis klaufaskapur Liverpool manna kom í veg fyrir áframhaldandi þátttöku liðsins í Meistaradeildinni.

Tölfræði: Heimavöllur: BayArena sem tekur 25.050 manns.

Titlar: UEFA bikarinn 1988, þýski bikarinn 1993.
Besti árangur í efstu deild: Annað sæti 1997,1999, 2000.

Leikmenn:

Hans-Jörg Butt
Markvörður
Fæddur: 28. maí 1974
Fyrri lið: Oldenburg og Hamburg (keyptur þaðan sumarið 2000)
Þjóðerni: Þýskur
Landsleikir: 2
Butt hefur vaxið mjög í marki Leverkusen eftir því liðið hefur á þessa leiktíð, og hefur, sérstaklega seinni hluta keppnistímabilsins, margsinnis haldið Leverkusen liðinu á floti með frábærum markvörslum. Virkar ekki stór á velli (er þó , en er 1,91 m á hæð) en er með gríðarlegan stökkkraft og er óhræddur við að fara út í háar fyrirgjafir. Tekur flest víti Leverkusen liðsins og hefur skorað 21 mark á ferlinum.

Jens Nowotny
Miðvörður
Fæddur: 11. janúar 1974
Fyrri lið: Karlsruhe
Þjóðerni: Þýskur
Landsleikir: 35
Gríðarlega sterkur miðvörður og lykilmaður í liði Leverkusen. Lítur út fyrir að vera kominn á fertugsaldurinn en svo er ekki. Fyrirliði liðsins og mér virðist hann ekki fá þá athygli sem hann á skilda, því hann er tvímælalaust meðal bestu varnarmanna Evrópu.

Lúcio (Lucima da Silva Ferreira)
Miðvörður
Fæddur: 8. maí 1978
Fyrri lið: Internacional
Landsleikir: 15
Þjóðerni: Brasilískur
Brasilískur miðvörður sem hefur vakið mikla athygli evrópskra stórliða og lýsti nýlega yfir áhuga sínum til þess að leika með Real Madrid. Öskufljótur og skoraði skemmtilegt mark í leik gegn Köln um daginn þar sem hann fékk boltann inn á eigin vallarhelmingi, tók á rás, og lék á fjóra andstæðinga áður en hann sendi boltann í netið. Er gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna Leverkusen.

Diego Placente Vinstri bakvörður
Fæddur: 24. apríl 1977
Fyrri lið: Argentinos og River Plate
Þjóðerni: Argentínskur
Landsleikir: 2
Af mörgum álitinn veikasti hlekkurinn í vörn Leverkusen liðsins. Það er samt seint hægt að telja Placente lélegan leikmann. Samvinna hans við Ze Roberto á vinstri kantinum hefur skilað mörgum mörkum.

Zoltan Sebeschen
Hægri bakvörður/kantmaður
Fæddur: 1. október 1975
Fyrri lið: Stuttgarter Kickers, Wolfsburg
Þjóðerni: Þýskur
Landsleikir: 1
Sterkur bakvörður, en er þó fyrst og fremst þekktur fyrir sín þrumuskot. Tekur flestar aukaspyrnur Leverkusen.

Boris Zickovic
Varnarmaður
Fæddur: 15. nóvember 1975
Fyrri lið: Marsonia, Hr. Dragovoljac
Þjóðerni: Króatískur
Landsleikir: 8
Varamaður í vörninni, mest notaður fyrir Sebeschen. Ef að hann kemur inn á þá verður hann veikasti hlekkur varnarinnar.

Ze Roberto (José Roberto da Silva Júnior)
Vinstri kantmaður
Fæddur: 6. júlí 1974
Fyrri lið: Portuguesa, Real Madrid, Flamengo.
Þjóðerni: Brasilískur
Landsleikir: 50
Mörk: 4
Tvímælalaust mikilvægasti leikmaður Leverkusen. Mest allt spil liðsins fer í gegnum hann og hann dælir sendingum inn á vítateig utan af vinstri kanti. Getur einn og óstuddur tekið það að sér að breyta gangi leiks sem stefnir í óefni fyrir Leverkusen. Hefur átt það til að týnast í leikjum, en hann hefur verið nokkuð stöðugur í allan vetur. Gary Neville á erfitt verk fyrir höndum við að stoppa þennan fljóta og leikna Brazza. Hefur lýst yfir vilja sínum til þess að spila með Bayern München á næstu leiktíð.

Carsten Ramelow
Varnartengilliður
Fæddur: 20. mars 1974
Fyrri lið: Hertha Berlin
Þjóðerni: Þýskur
Landsleikir: 25
Auðþekktur á velli fyrir skærljóst hár, og manni dettur helst í hug fyrirmynd Hitlers að Aríum, hinum hreinræktaða kynstofni, þegar hann sést á sjónvarpsskjánum. Gríðarlega duglegur leikmaður á miðjunni og sér um að brjóta niður sóknir andstæðinganna. Á oft góðar sendingar sem geta splundrað vörn andstæðinganna.

Michael Ballack
Sóknartengilliður
Fæddur: 26. september 1976
Fyrri lið: Kaiserslautern, Chemnitz.
Þjóðerni: Þýskur
Landsleikir: 23
Mörk: 7
Það þarf ekki alltaf að fara mikið fyrir honum inn á miðjunni í leikjum, en það má hins vegar ekki gleyma honum. Hann er búinn að skora 31 eitt mark á þessari leiktíð og er um þessar mundir markahæsti leikmaður þýsku Bundesligunnar. Stór og góður skallamaður og hefur skorað ófá skallamörk eftir hornspyrnur. Er búinn að skrifa undir samning við Bayern München og gengur til liðs við þá í sumar.

Bernd Schneider
Hægri kantmaður
Fæddur: 17. nóvember 1973
Fyrri lið: Jena, Frankfurt
Þjóðerni: Þýskur
Landsleikir: 10
Mörk: 3
Búinn að vera þrjú ár hjá Leverkusen, en það var ekki fyrr en í haust að Klaus Toppmöller fór að gefa honum byrjunarliðssæti og Schneider þakkaði pent fyrir sig með oft á tíðum skínandi leik í upphafi keppnistímabilsins. Góður skotmaður og þó að athyglin verði vafalaust mest á Ze Roberto á vinstri kantinum, þá má ekki gleyma Schneider.

Yildiray Bastürk
Sóknartengilliður.
Fæddur: 24. desember 1978
Fyrri lið: Bochum
Þjóðerni: Tyrkneskur
Landsleikir: 8
Litla jólabarnið hefur verið sterkt á miðjunni hjá Leverkusen í vetur. Það er oft einstaklega gaman að sjá hversu lipur Bastürk er með boltann, og jafn sorglegt hvað hann á að erfitt með að standa í lappirnar. Ætlar sér stundum of mikið og klúðrar þannig upplögðum marktækifærum.

Oliver Neuville
Hægri kantmaður/sóknartengilliður/framherji
Fæddur: 1. maí 1973
Fyrri lið: Rostock, Tenerife, Servette
Þjóðerni: Þýskur
Landsleikir: 30
Mörk: 3
Á ítalskt og þýskt foreldri en ólst upp í Sviss. Er meiddur og líkur benda til þess að hann geti ekki leikið með gegn Manchester United. Fljótur leikmaður og spilar oft sem afturliggjandi framherji í 4-4-1-1 uppstillingu Leverkusen.

Dimitar Berbatov
Framherji
Fæddur: 30. janúar 1981
Fyrri lið: CSKA Sofia
Þjóðerni: Búlgarskur
Landsleikir: 13
Mörk: 6
Rísandi stjarna í Leverkusen liðinu og hefur að undanförnu verið að ýta sjálfum Ulf Kirsten út úr liðinu. Sterkur skallamaður. Skoraði jöfnunarmark Búlgara gegn Íslendingum þegar liðin áttust við á Laugardalsvellinum seinasta sumar.

Thomas Brdaric
Framherji
Fæddur: 23. janúar 1975
Fyrri lið: Fortuna Köln, Düsseldorf, Stuttgart
Þjóðerni: Þýskur
Landsleikir: 1
Hefur verið að keppa við þá Berbatov og Kirsten um framherjastöðuna og gengið nokkuð vel, og lék fyrsta landsleikinn sinn um daginn. Fljótur og leikinn leikmaður og ótrúlega markheppinn.

Ulf Kirsten
Framherji
Fæddur: 4. desember 1965
Fyrri lið: Dynamo Dresden.
Þjóðerni: Þýskur
Landsleikir: 100
Mörk: 35
Verður 37 ára gamall á þessu ári, en er samt enn í fremstu röð meðal framherja, ekki bara í Þýskalandi, heldur Evrópu allri. Ætlar að leggja skóna á hilluna eftir þetta keppnistímabil og vill eflaust kveðja með stæl. Hefur verið aðalmarkaskorari Leverkusen í ein 12 ár. Duglegur að koma sér í góðar stöður án bolta og skorar mikið af skallamörkum þó hann sé ekki hár í loftinu.

Er þetta ekki nóg - viltu vita meira um Bayer 04 Leverkusen:

Opinber heimasíða félagsins
http://www.bayer04.de/
Þýskur stuðningsmannaklúbbur 04 Leverkusen
http://www.fcl-feuerrot.de/



Heimild: www.manutd.is
Glory Glory Man Utd