Knattspyrnukappinn landsþekkti, Bjarki Gunnlaugsson, hefur gengið til liðs við KFD, Knattspyrnufélagið Deigluna. Mun hann leika með liði félagsins í 3. deild Íslandsmótsins í sumar. Í tilkynningu frá félaginu segir að félagaskipti Bjarka úr enska liðinu Preston North End í KFD hafi þegar verið tilkynnt KSÍ. Bjarki á að baki níu ára feril sem atvinnumaður en þrálát meiðsl bundu enda á atvinnumannaferil hans á síðasta ári. Hann hefur nú ákveðið að hefja áhugamannaferil sinn að nýju með liði Deiglunnar, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Deiglan leikur í 3. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í sumar en félagið var stofnað í desember síðastliðnum. Alls eru starfandi þrjár deildir hjá félaginu: knattspyrnudeild, körfuknattleiksdeild og sundknattleiksdeild. Bjarki er Deiglunni mikill liðsstyrkur og verður spennandi að fylgjast með frammistöðu liðsins í sumar.