Það styttist Nú styttist óðum í að Íslandsmótið hefjist að nýju og eru allir að undirbúa sig. Ég ákvað að fara á smá netflakk og kíkja á athyglisverðar fréttir frá Símadeildarliðunum tíu. Það er skemmst frá því að segja að ég varð fyrir vonbrigðum, fann lítið af athyglisverðum fréttum, en ég fann þó eitthvað. Þetta er kannski ekkert mjög skemmtilegt lestrar en læt þetta samt fylgja með:

ÍA
7.Mars: Skagamenn léku í kvöld æfingaleik við Grindavík. Skagamenn voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komu Hjörtur og Jón Þór okkur í 2-0, í seinni hálfleik jafnaðist leikurinn og náði Óli Stefán að minnka munin en lengra komust Gindvíkingar ekki. Sanngjarn sigur 2-1.

GRINDAVÍK
Heimasíða þeirra er sorgleg og ekkert þar að finna (umfg.is)

ÍBV
2.Apríl: Ekki verða miklar breytingar á leikmannahópi ÍBV fyrir sumarið en við leitum samt að framherja og koma nokkrir til greina þar en þau mál munu skýrast á næstu vikum. Einnig erum við opnir fyrir að styrkja miðjuna þar sem margir af okkar sterkari póstum hafa meiðst að undanförnu og nægir þar að nefna Bjarna Geir, Hjalta Jóns og Unnar Hólm. Mikil umræða hefur átt sér stað víða um hvar leikmannamál ÍBV standa en staðan er í raun að menn eru að skoða ýmsa möguleika en stjórn knattspyrnudeildar ÍBV ætlar ekki að fara út í eitthvað sem þeir ráða ekki við fjárhagslega.

KEFLAVÍK
5.Apríl: Næsti leikur í Deildarbikarnum verður á sunnudaginn þegar Keflavík og Dalvík mætast. Þetta er fyrsti “útileikur” Keflavíkurliðsins í keppninni en leikið verður á gervigrasinu í Laugardal og hefst leikurinn kl. 18:00.

FYLKIR
5.Apríl: Barna og unglingaráð knattspyrnudeildar Fylkis er að gera samstarfssamning við Ian Rush með stuðningi Vífilfells. Samningur þessi felur í sér að Ian Rush ætlar í samstarfi við Fylki, Vífilfell og önnur fyrirtæki sem að þessu koma að vera með knattspyrnuskóla 24. – 28. júní á íþróttasvæði Fylkis.
Markhópurinn eru krakkar af öllu landinu á aldrinum 6-16 ára

20.Feb: Fylki barst mikill liðsstyrkur þegar Valur Fannar skrifaði undir samning til tveggja ára. Fylkismenn eru ánægðir að fá þennan sterka leikmann í sínar raðir en eins og flestir vita var Valur fyrirliði Fram en einnig er Valur starfandi hjá okkar Tekkfyrirliða Finni Kolbeinssyni. Við bjóðum Val velkominn í lautina og vonum að honum eigi eftir að líða vel hjá okkur í “sveitinni”.

FH
1.Apríl (Aprílgabb): Óstaðfestar fregnir herma að markahrókurinn mikli Hörður Magnússon hafi ákveðið að taka skónna fram að nýju og leika með FH-ingum enn eina sparktíðina. Hörður var eins og menn muna kvaddur með tárum í Krikanum sl. sumar, en að sökum markaþurrðar hjá FH á undirbúningstímabilinu hefur hann ákveðið að láta undan þrýstingi frá Sigurði Jónssyni og reima aftur á sig markaskónna. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort að Hörður verði á leikskýrslu gegn KR-ingum á fimmtudaginn nk., en eins og allir vita þá er Hörður mikill KR-bani og því má búast við að mikil áhersla verði lögð í að hann verði tilbúinn í slaginn fyrir þann leik. Það verður líka athyglisvert að sjá hvort að Hörður leiki við hlið frænda síns, hins unga Sigmundar Péturs Ástþórssonar, í komandi leikjum.

FRAM
27.Feb: Ásgeir Halldórsson, sem allir Framarar þekkja, skrifaði undir samning við Fram nú í dag til eins árs. Ásgeir hætti að spila vegna meiðsla en hefur nú náð fullum bata og hefur ákveðið að spila með okkur Frömurum í Símadeildinni í sumar. Gaman verður að sjá Ásgeir á ný í bláa búningnum. Gunnar Bachmann Ólafsson skrifaði einnig undir samning við okkur Framara til eins árs. Gunnar kemur úr röðum Tindastólsmanna en spilaði þar áður með Breiðablik í efstu deild. Er hér um öflugan leikmann að ræða sem við Framarar bindum miklar vonir við. Er ekki spurning að þetta er mikill styrkur fyrir okkur Framarar og óskum við báðum þessum leikmönnum velfarnaðar og bjóðum þá hjartanlega velkomna í Safamýrina.

KA
3.Apríl: Nokkrir ungir og efnilegir strákar hafa verið að banka á dyrnar hjá meistaraflokki á síðustu leiktíð og eru tilbúnir að hlaupa í skörðin ef að eldri og reyndari leikmenn standa sig ekki. Þetta eru félagarnir Elmar, Jóhann, Kató og Skúli. Undirritaður hitti þá á dögunum og lagði fyrir þá nokkrar spurningar. Strákarnir eru allir KA-menn að upplagi og léku stórt hlutverk með 2.flokki í fyrra. Núna eru Elmar og Kató gengnir upp úr 2.flokki en Skúli er þar á lokaári og Jóhann á miðári. Strákarnir voru spurðir að því hvað yrði um þá stráka sem færu upp úr 2.flokki og kæmust ekki í meistaraflokkshópinn. Þeir sögðu að annaðhvort færu þeir í minni félögin í nágrenninu eða að þeir flosnuðu frá fótboltanum. Jóhann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með KA í deildarbikarnum í fyrra og sat á bekknum í nokkrum deildarleikjum. Hinir þrír léku sína fyrstu meistaraflokksleiki í hittifyrra og léku nokkra leiki í deild og bikar í fyrra og hittifyrra. Þeir stefna að sjálfsögðu að því að komast í liðið í sumar og sagðist Elmar vera bjartsýnn á það en Kató sagði aðalmarkmiðið sitt vera að halda sér heilum en síðasta leiktíð var götótt hjá honum vegna meiðsla. Skúli lék með U-19 ára landsliðinu s.l. haust í Tékklandi og sagði þá ferð hafa verið skemmtilega og lærdómsríka. Jóhann hefur í vetur farið á nokkrar úrtaksæfingar vegna U-19 landsliðsins. Hann sagði að sér hefði gengið vel á æfingunum og er nokkuð bjartsýnn á að vera valinn í U-19 landsliðið í haust. Þeir eru bjartsýnir á gott gengi KA-liðsins í sumar og eru á því að liðið hafni ofarlega í úrvalsdeildinni

KR
4.Apríl: Einar Þór Daníelsson lék sinn 273. leik með mfl. KR í kvöld. Þar með er Einar orðinn fjórði leikjahæsti KR-ingurinn frá upphafi en fyrir leikinn deildi hann fjórða sætinu með Ellerti B. Schram. Einar vantar sjö leiki til að ná Ottó Guðmundssyni, sem er í þriðja sæti og 18 leiki til að ná Gunnari Guðmannssyni sem er næst leikjahæstur. Svo þarf Einar spila þremur til fjórum árum lengur en Þormóður Egilsson til að ná leikjameti Móða.

24.Janúar: Veigar Páll Gunnarsson mun leika með KR á næsta keppnistímabili. Greint var frá þessu í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld. Veigar Páll lék með Strömsgodset í Noregi síðasta sumar en hann kom þangað frá Stjörnunni . KR þarf að greiða norska liðinu um eina milljón ísl. kr. til þess að málið sé í höfn og mun Veigar Páll skrifa undir samning til tveggja ára í dag. KR á líklega fyrir þessum kaupum núna eftir söluna á Rauða Ljóninu en sagnir herma að fengist hafi 90 millj. fyrir þau viðskipti, sem skilar félaginu þá 20 milljóna söluhagnaði því KR keypti Ljónið upphaflega á 70 milljónir króna, að vísu er það ekki sjálfgefið að Ljónið hafi verið rekið með hagnaði síðan það var keypt þannig að óvíst er með öllu að þessar 20 millur séu neitt fagnaðarefni.

ÞÓR
Þórsarar spiluðu æfingaleik í kvöld við Lepe sem er sterkt lið í nágrenninu. Leikurinn fór fram í flóðljósum. Strákarnir unnu leikinn 4-1, staðan í hálfleik var 1-1. Í hálfleik slokknaði á flóðljósunum og tafðist leikurinn um 20 mínútur. Þetta hafði ekki áhrif á strákana og bættu þeir við 3 mörkum í seinnihálfleik. Að sögn Kristjáns Þjálfara spiluð þeir feykivel og hefur þessi æfingaferð heppnast mjög vel. Þeir sem skoruðu í hitanum ( 30°C ) voru Þórður Halldórsson, Orri Freyr Óskarsson, Freyr Guðlaugsson og Gunnar Konráðsson. Liðið kemur heim á morgun, föstudag.


Svo mörg voru þau orð… ef þú hefur nennt að lesa þetta frekar leiðinlega efni.