Þegar Elísabet Englandsdrotting aðlaði Alex Ferguson 12. júní 1999, kom það ekki mörgum á óvart. Hann hafði verið einn sigursælasti knattspyrnustjóri breskrar knattspyrnu frá upphafi. Enski boltinn var í ákveðinni lægð á um tíma og eflaust hefur bann það sem sett var á þátttöku enskra liða í evrópukeppninni 1985-1990 átt sinn þátt í því. Ferguson og gengi hans manna á árunum 1992 til 1999 áttu töluverðan þátt í að rífa vinsældir enskrar knattspyrnu upp og gera hana á ný virta á alþjóðlegum vettvangi.
Þegar Alex Ferguson tók við Manchester United í november 1986, hafði honum tekist að rjúfa sigurhring gömlu skosku stórveldanna, Celtic og Rangers og þrisvar sinnum unnið skosku deildina með liði Aberdeen, fjórum sinnum hafði hann unnið skoska bikarinn og honum hafði einu sinni tekist að vinna evrópukeppni bikarhafa.
Ferguson hefur orð á sér fyrir að vera strangur en mjög tatktískur og snjall knattspyrnustjóri með mjög gott auga fyrir hæfileikaríkum leikmönnum. Það sannaði hann þegar hann gerði Aberdeen að sterkasta liðinu í Skosku deildini á aðeins fjórum árum, og án þess að hafa úr miklu fjármagni að moða. Menn gátu rétt ímyndað sér hvað slíkur maður gæti gert hjá liði eins og Manchester United.
Eftir að Ferguson kom á Old Trafford í november 1986 beið honum það erfiða verkefni að gera Manchester United að því stórveldi sem það hafði verið undir stjórn sir Matt Busby. Stjórar höfðu komið og farið en engum tekist það sem stefnt var að á hverju tímabili, að vinna enska meistaratitilinn. Það hafði ekki tekist í um 20 ár. Eitt það fyrsta sem Ferguson gerði sem stjóri United var að endurskipuleggja unglingastarfið og það átti eftir að borga sig margfalt. Töluverður hópur leikmanna í gegnum stjórnartíð hans hefur komið í gegnum það.
Ferguson keypti og seldi ýmsa leikmenn, en þar sem United gekk ekki sem skildi fyrstu árin undir hans stjórn, var hann orðinn býsna valtur í sessi eins og fyrirrennarar hans. Í raun var það einu marki frá Mark nokkrum Robins að þakka að hann var ekki rekinn.
Stjórn United hafði farið fram á sigur í næsta leik ef Ferguson átti að vera við stjórnvölin áfram, en þegar aðeins tíu mínútur voru eftir að leiknum skoraði Mark Robins sigur markið og hann hélt starfi sínu.
Eftir fjögur erfið ár á Old Trafford var Ferguson búinn að byggja upp sterkt unglingalið og var með mjög efnilegan og spennandi leikmannahóp. En árið 1990 tókst honum loksins að koma fyrsta bikarnum í hús þegar hann vann FA Bikarinn, og á tímabilnu þar á eftir vann hann Evrópukeppni bikarhafa, eftir að hafa nokkuð óvænt sigrað stjörnum prýtt lið Barcelona, og þar á eftir vann hann “Super Cup” bikarinn. Ensk lið höfðu verið í banni frá evrópukeppninni og þau mættu til leiks með lítið sjálfstraust í kjölfar þess. Í því ljósi var sigurinn mikilvægari fyrir vikið.
Lið Liverpool hafði nánast ekki slegið feilpúst á árunum 1980-1990 hrundi skyndilega árið 1991 eftir að Kanny dalgleish hætti skyndilega sem stjóri á lokasprettinum. Það varð því ljóst þegar tímabilið 1991/1992 hófst að titiliin var “á lausu”, því að Liverpool hafði ekki burði til að vinna hann. Ferguson hafði verið að byggja smám saman upp lið sitt og var lið United talið nokkuð sigurstranglegt í deildinni ásamt liði Arsenal. Áhuginn heimafyrir hafði aukist og áhorfendum á Old Trafford fjölgaði ört á meðan Alex byggði upp sterkara og meira spennandi lið, og hvert sem United liðið fór fylltust stúkurnar. Sá leikmaður sem mesta athygli vakti var á efa hinn 18 ára gamli Ryan Giggs. Ferguson sagði að þegar hann hafi fundið Giggs, eða Wilson eins og hann hét þá, á æfingavelli Manchester City þremur árum áður, þá hafi það verið ein af þeim stundum sem gera fótboltann þess virði að taka þátt í honum.
En það var samt Leeds sem kom öllum á óvart og hirti meistaratitilinn eftir jafna og spennandi baráttu við Manchester United, en úrslitin réðust ekki fyrr en í síðustu umferð. Ferguson og hans menn urðu að gera sér að góðu deildarbikarinn eftir 1-0 sigur á Nottingham Forest. Þetta var mikið áfall fyrir Ferguson og nú kváðu við margar raddir sem sögðu að það væri sennilega óleysanlegt verkefni að vinna ensku deildina með Manchester United.
Árið eftir var deildakeppninni breytt og tekinn upp sá síður að kalla efstu deildina úrvalsdeild. Það var búinn til nýr bikar og kannski reynt að markaðssetja deildina þannig að það væri “byrjað á núlli”. Þetta var kannski stökkpallur fyrir United, en það sem gerði gæfumuninn að Manchester United tókst að vinna meistaratitilinn 1993 voru án efa kaupin á Eric Cantona. Sögu hans þekkja flestir og verður hún ekki rakin hér. Kaupverðið var í raun hlægilegt, 1,2 milljónir punda. Eftir mikið og spennandi kapphlaup við Aston Villa og Ron Atkinson fyrirrennara Ferguson á Old Trafford, tókst Manchester United að vinna enska meistaratitilinn eftir 26 ára bið. Aston Villa hikstaði á lokasprettinum og tap þeirra fyrir fallliði Oldham í næst síðasta leik tryggði United meistaratitilinn. Alex Ferguson var að spila golf á meðan leikurinn fór fram og vildi ekki vita úrslitin fyrr en að golfinu loknu, en Mark sonur hans stóðst ekki freistinguna. Ferguson tók fréttunum með jafnaðargeði, en eflaust hefur honum verið afar létt innanbrjósts.
Um sumarið styrkti Alex liðið enn frekar og keypti Roy Keane frá Nottingham Forest fyrir metfé. Hann og Paul Ince áttu frábært samstarf á miðjunni ásamt gamal jaxlinum Bryan Robson og spiluðu mjög vel saman. Með leikmenn eins og Kanchelskis og Giggs á köntunum, Hughes og Cantona frammi var eitt besta tímabil Ferguson í vændum. Liðið komst í úrslit deildarbikarsins, vann deildina og lagði Chelsea svo 4-0 í úrslitaleiknum um FA bikarinn, frábær árángur sem fá lið hafa leikið eftir.
1994/1995 var ekki gott tímabil fyrir Alex, 7 milljóna maðurinn Andy Cole skoraði lítið eftir að hann kom frá Newcastle. Það hafði lengi vantað framherja sem skoraði mikið og Ferguson þurfti að splæsa hárri fjárhæð til að kaupa markakóng deildarinnar frá árinu áður. Þeir Cantona og Cole spiluðu bara saman einn og hálfan leik því að Cantona var dæmdur í 9 mánaða keppnisbann vegna átaka við áhorfanda. Án Cantona vantaði stöðugleikann í liðið og Blackburn vann deildina með 34 mörkum frá Alan Shearer. United töpuðu svo fyrir Everton í úrslitaleik um FA bikarinn.
Aftur var komin pressa á Ferguson.
En eftir tímabilið 1995 tók Ferguson stóran séns og seldi lykilmenn eins og Paul Ince, Andrei Kanchelskis og Mark Hughes. Hann notaði í stað unga leikmenn eins og David Beckham, Nicky Butt, Gary Neville og Paul Scholes. Það var hlegið að þessari ákvörðun hans í fyrstu og menn héldu að ósigrarnir á tímabilinu á undan hefðu rænt Ferguson dómgreindinni. Hann hafði áður og hefur oft síðan tekið ákvarðanir sem orka tvímælis. Það merkilega er að þessar ákvarðanir hans hafa oftar en ekki gengið upp og það hefur komið honum á þann stall sem hann dvelur í dag. Þessi ákvörðun hans reyndist einhver sú mikilvægasta og besta sem hann hafði tekið og unnu United deildina, auk þess að leggja Liverpool í úrslitaleik um FA bikarinn með marki frá Eric Cantona sem var kominn úr banni. Þar með varð United fyrsta liðið til að vinna “The double double”, eða deild og bikar á sama tímabili í annað sinn. Nú var litið á unglingastarf Ferguson og hans manna sem fyrirmynd þess hvernig reka ætti knattspyrnufélag. Hin liðin í úrvalsdeildinni hófu mikið unglingastarf sem er að skila sér núna hjá sumum liðanna, auk þess sem gott gengi enska landsliðsins endurspeglar þessa endurreisn enskra knattspyrnumanna.
Alex tók töluverða áhættu að halda Eric Cantona eftir atvikið á Selhurst Park, þar sem hann réðst á áhorfanda, en það borgaði sig og framlínan sem saman stóð af Cantona, Cole og Sólskjær tryggði United titilinn annað árið í röð 1996/1997 og var það fjórði titillinn á fimm árum.
Tímabilið 1997/1998 var slæmt fyrir Alex, United endaði í öðru sæti, stigi á eftir geysisterku liði Arsenal sem vann einnig FA bikarinn það tímabil. United gerði ekkert markvert það tímabil nema að kaupa leikmenn sem seinna meir urðu mikilvægir leikmenn í liðinu, og má þar nefna hinn franska Mikael Silveste, einnig var hinn hollenski Jaap Stam keyptur fyrir 10.75 milljónir punda, og var þar með dýrasti varnamaður í heimi.
Tímabilið 1998/1999 byrjaði með látum þegar Alex keypti Dwight Yorke fyrir 12.6 milljónir punda sem var félagsmet. Enn ein ákvörðun Ferguson sem var gagnrýnd. Yorke sannið sig fljótlega og eftir nokkrar prófanir kom í ljós að hann og Cole náðu frábærlega saman.
Nú var Brian Kidd, sem hafði verið hægri hönd Alex síðustu ár, farinn til Blackburn þar sem hann tók við sem stjóri. Í staðin réð Alex aðstoðarstjóra Derby í hans stað. Þar hófst samstarf Alex Ferguson og Steve McClaren sem átti eftir að verða mjög árangursríkt.
Þetta tímabil var án vafa það besta í sögu félagsins. United náði þeim stórkostlega árangri að vinna þrefalt, eða ensku deildina, FA bikarinn og meistaradeild Evrópu þar sem United lagði Bayern Munchen í ótrúlegum leik, og auk þess náðu þeir að spila 30 leiki í röð án þess að tapa. Ferguson var kominn á stall með þeim bestu í sögunni og Drottningin sló hann til riddara. Alex Ferguson var orðinn sir Alex
Tímabilið eftir þrenunna átti ekki eftir að verða auðvelt, stuðingsmenn jafnt sem leikmenn og stjórn United voru í skýjunum eftir stórkostlegan árangur á síðasta tímabili, og þrátt fyrir að flestir gerðu sér grein fyrir því að þetta væri ekki eitthvað sem yrði leikið eftir í bráð voru væntingarnar miklar. Peter Schmeichel var farinn, og Mark Bosnich var kominn aftur til United frá Aston Villa, en eftir aðeins örfáa leiki meiddist hann illa þannig að sir Alex keypti Massimo Taibi fyrir háar fjárhæðir frá Venezia.
En tímabilið byrjaði ekki vel, og liðið tapaði gegn 2-1 Arsenal í góðgerðarskildinum á Wembley, og svo 1-0 í super-cup gegn Lazio. Liðið datt einnig út úr heimsmeistarakeppni félagsliða, sem reyndar var nú leikin í síðasta sinn. En fyrir þessa keppni ákvað United að taka ekki þátt í FA bikarnum, þar sem álagið á leikmennina yrði of mikið.
Stærsti ósigur United frá 1996 leit dagsins ljós þegar liðið tapaði 5-0 gegn Chelsea á útivelli, sá ósigur var að miklu leiti hræðilegri frammistöðu Massimo Taibi að kenna og var hann seldur aftur frá félaginu eftir aðeins 3 leiki. United datt svo út úr meistaradeildinni í 8 liða úrslitum gegn Real Madrid, fyrri leikurinn fór 0-0, en eftir að hafa komist 0-3 yfir sigraði Real 2-3 á Old Trafford.
Þrátt fyrir slæman árangur í öðrum keppnum náði liðið þó að sigra deildina eftir að hafa tapað aðeins 3 leikjum, gegn Newcastle, Tottenham og Chelsea.
Tímabilið 2000/2001 byrjaði með ósigri í góðgerðarskildinum eins og svo oft áður, en liðið tapaði 2-0 gegn Chelsea, engu að síður var það talið góðs viti því United hafði tapað tvö síðustu tímabil en sigrað deildina í bæði skiptin, en aftur á móti höfðu Arsenal unnið deildina síðast þegar United vann góðgerðarskjöldinn.
Fabien Barthez, að margra mati einn besti markvörður í heimi, var kominn á milli stangana og gaf það leikmönnum mikið sjálfstraust. En þetta tímabil minnir mjög mikið á það síðasta, United gekk ekki vel í öðrum keppnum, eftir að hafa unnið 1. deildarliðið Fulham 1-0, tapaði United svo í 4. umferð gegn West Ham, eftir misskilning á milli dómara og Fabien Barthez náði Paolo Di Canio að renna boltanum í netið undir lok leiksins og batt það enda á þáttöku United þetta tímabil.
Aftur datt liðið úr meistaradeildinni í 8 liða úrslitum en í þetta sinn gegn Bayern Munchen, sem fór svo áfram í úrslit og unnu keppnina. En þrátt fyrir dapurt gengi á öðrum vígvöllum gat sir Alex ekki kvartað því að liðið var svo gott sem búið að vinna deildina um jólin.
Tímabilsins 2001/2002 verður e.t.v. minnst fyrir það eitt að sir Alex keypti dýrasta leikmann í sögu enskrar knattspyrnu þegar hann borgaði PSV rúmar 19 milljónir punda fyrir Ruud van Nistelrooy, og svo aftur þegar hann keypti Juan Sebastian Verón fyrir rúmar 28 milljónir punda. Að margra mati fyrsti leikmaðurinn í hæsta gæðaflokki sem enskt lið kaupir. Verón er gjanan talinn einn af þremur bestu miðjumönnum heims og verður lykilmaður í liði Argentínu á HM í sumar. Einnig seldi hann Jaap Stam til Lazio fyrir 18 milljónir punda og fékk Laurent Blanc í hans stað, leikmann sem hann hafði margoft reynt að kaupa áður. Þrátt fyrir að hafa tekið þá ákvörðun að hætta í lok þessa tímabils, skrifaði sir Alex undir nýjan samning sem rennur út árið 2005. Það er því ljóst að sir Alex mun leiða United liðið áfram og til enn fleiri sigra.