Everton hefur gengið frá fjögurra ára samningi við David Moyes, sem tekur við þjálfun liðsins af Walter Smith, sem rekinn var eftir slakt gengi liðsins um síðustu helgi. Everton verður að greiða Preston milljón punda til að losa þjálfarann undan samningi við fyrstu deildar liðið.

Everton er enn í fallbaráttunni í úrvalsdeild, þegar aðeins 9 leikir lifa af tímabilinu. Falli liðið verður það í fyrsta skipti í tæp 50 ár sem það gerist, en Everton hefur alla jafna þótt sjálfsagt í efri hluta efstu deildar.

Moyes sagðist vera að takast á hendur erfitt verkefni, og vissulega kynni hann því betur ef liðið væri að berjast um toppsæti deildarinnar, en hann hefði hins vegar fulla trú á að verkefnið tækist.

David Moyes er 38 ára skoti, sem hóf ferill sinn í knattspyrnu með Celtic 1980. Hann spilaði síðan með liðum á borð við Cambridge United, Bristol City og Shrewsbury. 1993 gekk hann í raðir Preston, þá í þriðju deild. Hann tók svo við þjálfun Preston 1998 og kom þeim upp í fyrstu deild árið 2000.