Christian Vieri er búinn að framlengja samning sinn hjá Inter til ársins 2006. Þetta eru góðar fréttir fyrir Hector Cuper og peppa örugglega upp móralinn fyrir leikinn gegn Juve í kvöld. “Við hittumst, ræddum saman í fimm mínútur og náðum samkomulagi. Ég er mjög hamingjusamur,” sagði Massimo Moratti forseti Inter. Hann hóf viðræður við Vieri í jólafríinu og samningurinn hefur legið á borðinu síðan í janúar. “Ég var viss um að hann myndi framlengja en það sem mér fannst skipta mestu máli er að Vieri hefur svipaðar hugmyndir og ég um framtíðina. Honum líður vel í Mílanó og vill verða fyrirliði liðsins.
Allir í liðinu kunna vel við hann og stjórinn okkar, Hector Cuper, er skynsamur og veit hvernig á að stjórna svona leikmanni,” sagði hinn hamingjusami forseti. Hann átti fullt í fangi með að halda Vieri síðasta sumar en þá bauð Juventus metupphæð í kappann. Moratti hafnaði tilboðinu og hækkaði jafnframt laun framherjans.
Vieri hefur komið víða við á ferlinum og verið þekktur fyrir að staldra stutt við. Hann hefur leikið með tíu liðum á ferlinum sem hófst árið 1989 og hefur samtals verið seldur fyrir 95 milljónir dollara. Nú finnst honum nóg komið. “Áður fyrr var ég alltaf tilbúinn að breyta til en ég er ekki þannig lengur. Þegar ég ræddi við forsetann í sumar sagði hann mér hversu mikla trú hann hefur á mér og útlistaði hugmyndir sínar fyrir mér. Síðan sýndi hann mér lista með nöfnum á leikmönnum sem Inter getur keypt og það hafði mikil áhrif á mig. Ég held að ég verði lengi hjá Inter og vinni marga titla með félaginu,” sagði Vieri