Bæjarar fíla ekki kerlinguna Uli Höness segir að Bayern München hafi ekki áhuga á að fá David Beckham í sínar raðir ef hann sé að dragnast með Victoriu á eftir sér. Beckham er ekki enn farinn að skrifa undir nýjan samning á Manchester United og því halda menn áfram að orða hann við hin ýmsu stórlið erlendis. Höness var í viðtali við The Sun og fór á kostum eins og hann stundum áður. “Beckham er vissulega heillandi fótboltans vegna en þegar maður tekur með í reikninginn að konan hans, þessi kryddpía, kæmi með honum fer gamanið að kárna. Það væri frábært fyrir fjölmiðlana en ekki fyrir okkur. Við getum komist af án svona fjölleikahúss. David Beckham er ágætur leikmaður en hvernig getur hann staðið sig vel þegar hann er dreginn út um allar trissur? Með slíkum kaupum værum við að kveðja fótboltann. Þetta væri bara sjóbisniss,” sagði Uli Höness.
Juve vill fá Nesta
Juve langar í Nesta Sagt er að Juventus hafi áhuga á að kaupa Alessandro Nesta frá Lazio og til greina komi að félagið reyni að bjóða einhvers konar leikmannaskipti. Tuttosport greinir frá því að leikmennirnir sem séu hugsanlega á förum til Lazio séu Gianluca Zambrotta og Mark Iuliano. Sergio Cragnotti metur Nesta á 70 milljónir evra og hann hefur hótað að selja nokkra af sínum bestu mönnum ef liðið komist ekki í meistaradeildina á tímabilinu. Real Madrid hefur einnig verið að spá í varnarmanninn sterka en áhuginn hefur dvínað síðan Francisco Pavon fór að blómstra. Það er því líklegast að Nesta verði áfram í Serie A, fari hann á annað borð frá Lazio.
Leyroy til PSG
Leroy til PSG Miðjumaðurinn Jerome Leroy hefur verið lánaður frá Marseille til PSG út tímabilið. Þessi 27 ára leikmaður þekkir vel til hjá Parísarliðinu því hann hefur leikið þar áður. Ef vel gengur og PSG nær Evrópusæti hefur félagið kost á að kaupa hann, ef Evrópusætið næst ekki fer hann aftur til Marseille.
Í lok desember sagði Leroy að hann vildi komast í burtu frá Marseille og um tíma var hann orðaður við Monaco. Hann spilaði með PSG frá 1996-99 en fór þá til Marseille. Þar er hann samningsbundinn til 2003. Leroy sagði að það væri ótrúlegt að fara til PSG enda væri Parísarliðið hatað í Marseille. Hann sagði að áhugi á fótbolta væri gríðarlegur í Marseille og upplifun hans þar væri engu lík. “Hvar sem Marseille spilar eru vellirnir alltaf troðfullir. Það er ótrúlegt. Það er mikil pressa á mér hér, rétt eins og hjá Marseille en ég stóðst hana þar og engin ástæða til að ætla annað en ég geti gert hið sama hér. Ég er ánægður með að ganga til liðs við félag sem gerir atlögu að titlinum,” sagði Leroy.
Van Bommel orðaður við Arsenal
Nú er miðjumaðurinn Mark van Bommel hjá PSV orðaður við Arsenal. Fréttir frá Hollandi herma að Gunners hafi spurst fyrir um leikmanninn og hafi áhuga á að fá hann á Highbury. Leeds, Man United og Barcelona hafa öll verið orðuð við Bomma sem er 24 ára og skoraði mark fyrir Hollendinga í vináttuleik gegn Englandi í ágúst. Arsenal-menn telja sjálfsagt að Bommi sé maðurinn til að taka við af Patrick Vieira sem er líklega á förum til Real Madrid. Madridingar segja Vieira efstan á óskalistanum og því verða Gunners að leita að eftirmanni þar sem Vieira hefur áður lýst yfir áhuga á að fara til Real.
Bommi skrifaði undir nýjan samning hjá PSV í byrjun tímabilsins og hann gildir til ársins 2005. Talið er að hann sé samt falur fyrir 15 milljónir punda.