Spútniklið Chievo er aftur komið á sigurbraut í Serie A. Í dag
sótti liðið Atalanta heim og sigraði 2-1 eftir að hafa verið marki
undir í hálfleik. Daniele Berretta skoraði fyrir heimamenn strax
á 5. mínútu en Massimo Marazzina jafnaði á 60. mínútu og
varamaðurinn Federico Cossato tryggði nýliðunum sigurinn
með sinni fyrstu snertingu í leiknum.
Roma er aftur komið í efsta sætið eftir 1-0 sigur á Udinese.
Eina mark leiksins gerði Francesco Totti á 23. mínútu.
Juventus vann öruggan 3-0 sigur á Udinese. Gianluca
Zambrotta, Pavel Nedved og Edgar Davids gerðu mörkin í fyrri
hálfleik.
Parma sigraði botnlið Venezia í dramatískum markaleik.
Stefano Bettarini kom botnliðinu yfir á 13. mínútu en Marco Di
Vaio skoraði tvívegis fyrir Parma á fimm mínútna kafla og
Emiliano Bonazzoli bætti þriðja markinu við á 36. mínútu.
Filippo Maniero minnkaði muninn úr víti rétt fyrir hlé og jafnaði
síðan leikinn fjórum mínútum fyrir leikslok. Það var
skammgóður vermir því Di Vaio skoraði þremur mínútum síðar
og tryggði Parma dýrmætan sigur.
Fiorentina er komið í verulega vond mál eftir 1-3 tap fyrir
Perugia á heimavelli. Daniele Adani kom Fiorentina yfir á 7.
mínútu en Zisis Vryzas jafnaði fyrir hlé. Gestirnir reyndust síðan
sterkari aðilinn í síðari hálfleik og unnu sannfærandi sigur.
Marco Di Loreto skoraði á 58. mínútu og Fabio Grosso á 74.
mínútu.
Bologna sigraði Brescia 2-1 á heimavelli. Fabio Petruzzi sendi
boltann í eigið mark á 9. mínútu og Carlo Nervo kom
heimamönnum tveimur mörkum yfir á 29. mínútu. Luca Toni
minnkaði muninn á 42. mínútu og þar við sat.
Marco Zanchi tryggði Verona 1-0 sigur á Piacenza og Jose
Mari gerði eina mark leiksins þegar AC Milan sigraði Lecce.
Þá gerðu Inter og Lazio markalaust jafntefli á San Siro.