Netmiðillinn Planetfootball.com greinir frá því um helgina að Middlesbrough hafi gert munnlegt samkomulag við argentínska félagið Independinente um að kaupa úrúgvæska landsliðs-sóknarmanninn Diego Forlan, 22 ára.
Man Utd gerði tilboð í Forlan fyrir helgi og hefur verið beðið eftir svari við því. Þessi frétt kemur því talsvert á óvart.
Á netmiðlinum kemur fram að samningaviðræður hafi farið fram á föstudaginn sl. Kaupverðið er sagt vera 6.9 milljónir punda og á Middlesbrough að hafa gengið að því. Heimildamenn í Argentínu segja að aðeins sé í raun beðið eftir faxi frá Englandi til að ganga frá kaupunum.
Svo virðist sem sem samningamenn Middlebrough hafi notað sömu sambönd þarna niðri í Suður Ameríku og þeir notuðu þegar Boro tókst að landa Carlos Marinelli frá Boca Juniors 1999, og Juninho frá Sao Paolo þar á undan.
Hvort hér sé á ferðinni brella hjá Indepentiente til að fá Man Utd til að bjóða hærra eða ekki, er látið lesendum til umhugsunar.
Það lítur hins vegar dálítið óvenjulega út þegar næsta skref hjá Indepentiente eftir tilboðið frá Man Utd, er að tilkynna að verið sé að ganga frá sölu á leikmanninum til félags sem enginn vissi að væri í kapphlaupi um hann.