Ísland lék í gær sinn síðari leik í ferðinni til Mið-Austurlanda en áður höfðu þeir gert markalaust jafntefli við Kúveita. Í gær léku þeir gegn Sádi-Aröbum sem eru að undirbúa sig fyrir HM sem fer fram í sumar í Japan og S-Kóreu. Helgi Sigurðsson skoraði mark fyrir Íslendinga eftir hálftíma leik en það var ranglega dæmt af vegna rangstæðu. Árni Gautur Arason stóð í marki Íslendinga í fyrri hálfleik og bar þá fyrirliðabandið, en í hálfleik kom Atli Knútsson inná í stað Árna og tók þá Gunnlaugur Jónsson við bandinu. Þegar 72.mínútur voru liðnar af leiknum koma eina markið þegar sóknarmaður Sádi-Araba skallaði yfir Atla í markinu. Fimm mínútum fyrir leikslok fengu Sádar vítaspyrnu sem Atli Knútsson varði vel en hann var að spila sinn fyrsta landsleik. Skömmu seinna var Sævar Þór Gíslason felldur og aukaspyrna dæmd en Íslendingar vildu meina að brotið hefði átt sér stað innan teigs. Sádi-Arabía sigraði í leiknum 1-0 en Ísland stóð vel í heimamönnum allan tímann þrátt fyrir að tefla fram frekar ungu og óreyndu liði.
Auk Atla voru þeir Baldur Ingi Aðalsteinsson og Stefán Gíslason að leika sína fyrstu A-landsleiki. Atli Eðvaldsson sagði í viðtali við Morgunblaðið að liðsheildin hafi verið sterk: “Strákarnir léku mjög vel, spiluðu sterka vörn og áttu bara í fullu tré við lið sem er að fara á HM og tefldi fram sínum sterkasta mannskap á meðan okkur vantaði marga lykilmenn”.