Oft hafa menn gripið til tölfræðinnar til að sanna mál sitt …og heldur oftar hefur það verið til að sýna yfirburði liðsins. En núna tala United tölurnar tungum sem við, aðdáendur liðsins, erum óvanir að sjá!
Nú eru fjórtán leikir búnir í Úrvalsdeildinni og liðið er í sjöunda sæti! Sex sigurleikir og United hefur aðeins unnið einum leik fleiri en þeir hafa tapað. Jafnteflin eru þrjú. Ekki skánar tölfræðin þegar litið er á markahlutfallið. Liðið hefur reyndar skorað 31 mark, flest allra liða, þó aðeins einu marki meira en Arsenal. En vörnin hefur lekið inn heilum t u t t u g u o g s e x mörkum. Aðeins eitt lið hefur fengið fleiri mörk á sig …AÐEINS EITT LIÐ!!! Það er West Ham með 27 mörk. Það þarf nú ekki nema einn leik í viðbót til að United toppi þar líka en eins og sjá má þá er United að fá á sig tæplega 2 mörk í leik að meðaltali!
Eftir fjórtán leiki á síðasta tímabili hafði United tapað tveim leikjum, og bættist aðeins eitt tap við á tímabilinu. 19 mörk fékk liðið á sig í þessum leikjum þar af 0 - 5 tap …gegn Chelsea. Í leikjunum það sem af er tímabilinu hafa lekið inn í einum og sama leiknum: 4 mörk frá Newcastle, 3 mörk frá Spurs, Liverpool, Arsenal og Chelsea. 2 mörk frá Fulham, Blackburn og Bolton. Eitt mark frá Aston Villa, Everton, Sunderland og Leeds: 26 mörk. Aðeins tvisvar hefur liðið haldið hreinu, gegn Ipswich og Leicester en aðeins einu sinni hefur ekki tekist að skora, þ.e. í síðasta leik gegn Chelsea.