Það er ljóst að nú er ekki mikið hátíðarskap á heimili Þórðar Guðjónssonar. Ekkert verður af félagaskiptum hans frá spænska liðinu Las Palmas til Roda í Hollandi. Ástæðan er sú að Roda tapaði máli gegn Groningen fyrir dómstólum í vikunni en Groningen höfðaði mál þegar í ljós kom að leikmaður sem það keypti frá Roda í fyrra reyndist alvarlega meiddur. Dómstóllinn kvað upp þann úrskurð að Roda yrði að taka við leikmanninum að nýju og þar með ákváðu forráðamenn liðsins að hætta við kaupin á Þórði.
Þetta eru mjög slæm tíðindi fyrir Þórð því Las Palmas og Roda höfðu náð samkomulagi um söluna á Þórði en henni var slegið á frest þegar Groningen lagði fram kæruna. Roda vann kærumálið fyrir neðri dómstigum en Groningen áfrýjaði og málinu og vann það fyrir borgaralegum rétti í fyrradag. Að svo stöddu er því mikil óvissa um framtíð Þórðar í boltanum…