Tímabilið hjá Þór frá Akureyri var ein stór sigurhátíð. Liðið fagnaði sigri í fyrstu deildinni 2001 og kom sér þannig upp í Úrvalsdeildina. Þeir unnu Víkinga 3 - 0 í lokaumferðinni og var glæsilegur árangur liðsins í sumar kórónaður í þessum leik. Eftir hann var öllum Þórsurum boðið upp rjómatertu í tilefni dagsins og þar mætti fjöldi manns til að fagna þeim áfanga að vera loks komnir á meðal þeirra bestu eftir 8 ára fjarveru.
Skemmtunin hélt síðan áfram á Oddvitanum þar sem fram fór lokahóf meistarflokka karla og kvenna. Þar var á boðstólnum matur, ræður, skemmtiatriði og að sjálfsögðu kunngerð úrslit úr vali á leikmönnum sumarsins í karla og kvennaflokki. Hjá strákunum var Orri Hjaltalín valinn besti leikmaðurinn og Pétur Kristjánsson valinn efnilegastur. Fleiri gleðileg tíðindi voru opinberuð þetta kvöld því að Árni formaður tilkynnti það að Kristján Guðmundsson yrði áfram þjálfari hjá Þór a.m.k næsta árið þrátt fyrir að fleiri félög hefðu falast eftir honum. Kvöldinu lauk síðan formlega á miðnætti með flugeldasýningu.
Laugardaginn 20. október tók bæjarstjórinn á Akureyri fyrstu skóflustungu að nýju fjölnota íþróttahúsi á félagssvæði Þórs við Skarshlíð. Fjölnota íþróttahúsið mun rúma knattspyrnuvöll í fullri stærð lagðan gervigrasi auk 110 m. hlaupabrautar og atrennubrauta fyrir stangarstökk og langstökk.
Leikmaður ársins hjá Þórsurum, Orri Hjaltalín, hefur vakið nokkra eftirtekt erlendra liða. Orri átti mjög gott tímabil með Þór í sumar og hefur einnig fest sig í sessi í 21 árs landsliði Íslands og ef hann heldur áfram á sömu braut er aðeins tímaspursmál hvenær hann fer út í atvinnumennsku. Þórsarar vonast þó eftir að njóta krafta hans í efstu deild á næsta tímabili.