Ef einhver hefur lítið verið að fylgjast með því hvað hefur gerst í herbúðum FH eftir að Íslandsmótinu lauk þá þarf sá hinn sami bara að lesa það sem stendur hér að neðan.
FH-ingar tryggðu sér sæti í Toto-keppni UEFA með góðum sigri á áhugalausum Fylkismönnum í Árbænum í 18.umferð. Logi Ólafsson, þjálfari, tilkynnti leikmönnum sínum eftir leikinn að hann væri á förum til Lilleström í Noregi og myndi því ekki halda áfram störfum hjá Fimleikafélaginu. Logi er nú orðinn aðstoðarþjálfari Lilleström.
Sigurður Jónsson var ráðinn þjálfari í stað Loga. Siggi hefur verið einn sterkasti knattspyrnumaður landsins síðustu ár. Hann er fyrrum leikmaður Arsenal, Barnsley, Sheffield Wednesday, Dundee Utd. og Örebro. Ekki er nokkur vafi á að öll þessi reynsla Sigurðar eigi eftir að skila sér í þjálfun hjá FH.
Lokahóf knattspyrnudeildar var haldið í Turninum í Hafnarfirði undir lok Septembermánaðar. Heimir Guðjónsson var valinn besti leikmaður sumarsins og Davíð Þór Viðarsson efnilegastur. FH-ingur ársins var valinn Logi Ólafsson. Margar aðrar viðurkenningar voru veittar t.d gerði bæjarstjóri Hörð Magnússon að opinberum vitaverði Hafnarfjarðar. Logi og Hörður var kvaddir og þökkuð frábær störf fyrir félagið. Hörður hefur lagt skóna á hilluna en hann er einn markahæsti leikmaður íslenskrar knattspyrnusögu. Jónas Grani fékk viðurkenningu sem markakóngur FH .
Hannes Þorsteinn Sigurðsson, hinn 18 ára gamli framherji FH, fór á kostum með u-19 ára landsliðinu í keppnisferð þess til Tékklands og skoraði hann mikið. Hannes er samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eftirsóttur af nokkrum liðum í Englandi. Þau lið sem um er að ræða eru Norwich og Crystal Palace sem að leika í ensku fyrstu deildinni.
Upplýsingar fengnar af heimasíðu FH (www.fhingar.is)