Fréttir úr herbúðum Keflavíkur Keflvíkingar eru í miklum fjárhagserfiðleikum og er líklegt að þeir mæta með mjög breytt lið til leiks á næsta tímabili og eru líklegir til að berjast í botnbaráttunni. Ragnar Steinarsson hefur laggt skóna á hilluna en honum var veitt viðurkenning fyrir langan feril hjá Keflavík á lokahófinu. Þá er líklegt að þeir Kristinn Guðbrandsson og Gunnar Oddsson hætti líka knattspyrnuiðkun.

Keflavík tapaði síðasta leik sínum í Símadeildinni í ár fyrir Fram 5-3. Leikurinn skipti engu máli fyrir Keflvíkinga. Hann var jafn og spennandi og sóknarleikur hafður í hávegum. Uppskeruhátíðin var haldin á Ránni og fór vel fram. Sami leikmaðurinn var valinn efnilegstur og bestur hjá meistaraflokki. Þetta var enginn annar en vallarstjórinn og varnarmaðurinn Hjálmar Jónsson.

Kjartan Másson var ráðinn þjálfari Keflavíkur fyrir næsta tímabil. Gústaf Adolf Björnsson er farinn að snúa sér að handbolta kvenna og var þá leitað til Kjartans. Ekki er úr miklum fjármunum að spila hjá knattspyrnudeildinni og því hvalreki að fá slíkan mann til starfa. Í framhaldi af ráðningu hans verður farið í að ganga frá leikmannamálum og ræða við þá leikmenn sem eru með lausa samninga. Eysteinn Hauksson er hættur hjá Keflavík og Haukur Ingi Guðnason gæti verið á leið út í atvinnumennskuna á ný. Ekkert verður þó úr því að hann fari til Groningen í Hollandi og mun hann jafnvel spila með Keflavík næsta tímabil.

Upplýsingar af heimasíðu Keflvíkinga.