Nú er ég hræddur um að Erikson þurfi að hressa upp á enska liðið ef það ætlar að gera einhverjar rósir á HM, næsta sumar. Mér fannst þeir ekki neitt sérlega sannfærandi í dag á móti hálfvængbrotnu sænsku liði, en þess ber þó að geta að Svíar eru með magnað landslið um þessar mundir. Það eru líka alltaf einhverjar hræringar í enska liðinu, þetta var að vísu vináttuleikur en það er nýtt lið í hverjum einasta leik. Að vísu hafa alltaf einhverjir verið meiddir þannig að það er skiljanlegt. Eitthvað er vinstri vængurinn líka að plaga Erikson sem hefur sett þar: Barmby, MacManahan, Sinclair og Anderton. Reyndar Heskey líka ef ég man rétt. Ég skil ekki hvað Anderton er að gera þarna, satt að segja, þó hann hafi nú í gegnum tíðina tekið rispur. En Svíar vörðust gríðarlega vel og pressuðu stíft svo enskir voru í stökustu vandræðum og skoruðu úr vafasamri vítaspyrnu. Minn maður, Martyn, hefði hugsanlega getað slegið boltann til hliðar eftir aukaspyrnuna en ekki beint á Hakan Mild en þeir í veggnum voru vitlausir að hoppa svona upp og klaufar að láta spyrnuna fara í gegn. Ég held að púllararnir þrír í senternum séu hættulegastir í landsliðinu en sjálfur vil ég sjá Alan Smith fá að spreyta sig, hef mikla trú á honum og hann vinnur eins og motherfucker allan tímann.
Svo er ég ánægður með mina menn, þá Harte og Robbie Keane, en þeir settu sitthvort í 2-0 sigri Íra á Írönum. Harte að vísu úr víti sem Jason McAteer fékk. Það getur þó orðið erfið viðureign fyrir þá í Íran í seinni leiknum.
Svo er ekkert víst að Þjóðverjar verði með á HM, þeir gerðu að vísu jafntefli 1-1 í Úkraínu en ég spái 2-2 í Þýskalandi. Það yrði nú eitthvað nýtt ef þeir kæmust ekki með.