Jæja, nú berast fréttir af hugsanlegri brottför Arsene Wenger
frá Arsenal. Teamtalk (nokkuð traustur miðill) segir frá því að
einhver titringur sé í herbúðum Arsenal og stjórnin sé ekkert
sátt við að Wenger sé ekki búinn að skrifa undir samning.
Samningur hans er laus næsta sumar og hann getur farið að
rabba við önnur lið eftir áramótin, ef hann skrifar ekki undir
nýjan. Svo fannst þeim víst ekkert voða kúl að tapa fyrir
Charlton.

Gróa á Leiti segir að stjórnin sé að þreifa fyrir sér með Louis
Van Gaal sem næsta framkvæmdastjóra ef málin leysast ekki
fljótlega með Wenger. Ungmennalið Arsenal hafa verið að
vinna allt sem hægt er að vinna, en Wenger hefur ekki verið
mikið fyrir að taka áhættu og skella unglingunum inn á í stöku
leik. Þá er horft til frábærs árangurs Van Gaal með unglingana
í Ajax á sínum tíma, en hann bjó til Evrópu-stórveldi úr
krökkunum þar. Hins vegar er spurning hvort árangur hann
hjá Barcelona og hollenska landsliðinu sé til eftirbreytni. Vann
að vísu einn meistaratitil með Barcelona, en klúðraði jafnan
meistaradeildinni, og með eitt af bestu landsliðum álfunnar
klikkar hann á því að komast á HM 2002. Meðal Arsenal
aðdáenda eru væntanlega skiptar skoðanir - bæði á því hvort
þeir vilja Wenger áfram eða ekki, og einnig á því hvort Van
Gaal sé góður eftirmaður hans.

Margir Arsenal-menn líta á David O'Leary sem góðan kost, en
hann er Arsenal-goðsögn og hefur sýnt með Leeds að hann
er ekki ónýtur þjálfari. Hann hefur hins vegar ekki verið alltof
blíðmæltur í garð Arsenal síðan hann hóf störf hjá Leeds, það
hafa verið talsverðar orðahnippingar og varla er Pires mjög
hlýtt til hans eftir viðskipti þeirra á síðustu leiktíð, eftir ósigur
Arsenal, þar sem Pires taldi sig eiga eitthvað vantalað við
O'Leary, sem dissaði Pires með því að blása til hans kossi.

Allra svartsýnustu menn sjá fyrir sér að Wenger fari og Vieira
líka - þá muni frönsku stjörnurnar Henry og Pires fara líka, og
liðið verði bara rjúkandi rúst næsta sumar. Við sannir
Arsenal-aðdáendur vitum að klúbburinn er stærri en
einstaklingarnir innan hans. Ef einhverjir snillingar fara, þá
koma aðrir í staðinn. En þurfum við ekki að fara að sparka í
rassinn á varnarmönnunum? Og hvað eru Luzhny og
Grimandi að gera í vörninni? Hvað er Luzhny að gera í liðinu
yfirleitt? En kannski er ekki hægt að búast við of miklu þegar
þrír af fjórum first choice varnarjálkum eru meiddir.

Vonandi sækja einhverjir stuðningsmenn Arsenal þennan vef,
því annars fara þessi skrif fyrir lítið. Látið þá endilega í ykkur
heyra, ef einhverjir eru.