Ronaldo var studdur af leikvelli eftir aðeins 17. mínútna leik gegn Lecce í dag. Kappinn var í byrjunarliði Inter í fyrsta skipti í tvö ár og náði þrívegis að koma við boltann. Inter lét þetta ekki á sig fá og vann öruggan 2-0 sigur. Mohamed Kallon og Luigi Di Biagio gerðu mörkin í fyrri hálfleik.
Juventus gerði 2-2 jafntefli við Verona eftir að hafa lent tveimur mörkum undir. Leonardo Colucci og Mauro Camoranesi skoruðu fyrir Verona en Igor Tudor og David Trezeguet gerðu mörk Juve.
Lazio hrökk heldur betur í gang og burstaði Brescia 5-0. Hernan Crespo gerði þrennu og Simone Inzaghi og Dejan Stankovic sitt markið hvor.
Roma gerði 1-1 jafntefli við Atalanta á útivelli. Marcos Assuncao kom Roma yfir á 51. mínútu með laglegu skoti úr aukaspyrnu en Cristiano Doni jafnaði á 74. mínútu úr vítaspyrnu.
Bologna er í þriðja sæti eftir 3-2 sigur á Fiorentina. Salvatore Fresi kom Bologna yfir á 13. mínútu en gamla brýnið Maurizio Ganz jafnaði þremur mínútum síðar. Fresi var aftur á ferðinni á 19. mínútu en Paolo Vanoli jafnaði á 28. mínútu. Fjórum mínútum síðar kom Lamberto Zauli Bologna yfir í þriðja skipti og fleiri urðu mörkin ekki.
Marco Di Vaio gerði bæði mörk Parma í 2-1 sigri á Perugia. Gikkinn Zizis Vrias gerði mark Perugia og jafnaði leikinn.
Udinese vann góðan útisigur á Piacenza. Davide Di Michele kom Udinese yfir á 23. mínútu en Dario Hubner jafnaði úr víti á 57. mínútu. Roberto Muzzi tryggði Udinese síðan sigurinn með marki úr víti.
Torino sigraði AC Milan 1-0 í kvöldleiknum. Eina mark leiksins gerði Cristiano Lucarelli í fyrri hálfleik.