Þá held ég áfram að líta á fréttirnar úr herbúðum liðanna í Símadeildinni. Næsta lið sem ég kíki á er reyndar ekki lengur í Úrvalsdeildinni, það féll úr deildinni í sumar. Við erum að tala um lið Breiðabliks úr Kópavoginum. Blikar kvöddu deildina með sigri í síðasta leiknum gegn Val 2-1. Þar með féllu bæði lið úr deildinni. Blikar fóru nú ekki í gegnum þetta mót án þess að hafa áhrif á það, unnu Fylki eftirminnilega í 14. umferð það hafði mikil áhrif á framhald mótsins.
Búið er að velja leikmann ársins hjá Breiðablik. Það var fyrrum Framarinn, Kristófer Sigurgeirsson, sem var valinn leikmaður ársins og Þorsteinn Sveinsson var valinn Bliki ársins. Þeir eru vel að þessu komnir kapparnir tveir. Lið Blika á næstu tímabili verður væntanlega að stórum hluta skipað ungum heimamönnum en efniviðurinn á Kópavogi er víst ekki af verri endanum.
Sigurður Grétarsson hefur látið af störfum sem þjálfari liðsins, og hefur Jörundur Áki Sveinsson tekið við. Jörundur þekkir vel til hjá félaginu þar sem hann hefur þjálfað meistaraflokk kvenna síðustu 4 árin og vann liðið 8 titla undir hans stjórn þessi ár. Stjórnin er mjög ánægð með þessa niðurstöðu og væntir mikils af Jörundi næstu árin. Samningur hans er til 3 ára.
Upplýsingar fengnar af www.breidablik.is