Markvörðurinn snjalli, Þórður Þórðarson, hefur yfirgefið Valsmenn og er kominn í KA. Hann gerði þriggja ára samning við félagið sem er þó uppsegjanlegur eftir tvö ár. KA-liðið fær mikinn styrk í Þórði, hann býr yfir mikilli reynslu sem er liðinu mikilvæg í hinni hörðu baráttu sem býður liðsins í úrvalsdeildinni. KA á ekki í samningaviðræðum við aðra leikmenn en Hreini Hringssyni verður boðinn nýr samningur eftir helgina.

Þórður er af mikilli knattspyrnuætt frá Akranesi. Hann lék í marki ÍA á árunum 1994 - 1998. Þaðan lá leiðin út í hinn harða heim atvinnuknattspyrnunnar þegar hann gerðist leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping. Með því liði lék hann í tvö ár en snéri síðan heim fyrir síðasta leiktímabil og gekk til liðs við Val.