Udinese
Englendingurinn Roy Hodgson ætlar að sanna sig í Serie A en honum tókst það alls ekki með Inter. Hann hefur ekki fengið mikinn tíma frá því hann kom frá Köben en hann hefur verið að reyna að losa sig við óþarfa mannskap.
Slæmt er að missa Stefano Fiore og Giannichedda en báðir fóru aftur til Lazio eftir lánstíma með Udinese á síðasta tímabili. Pieri kemur frá Perugia og Pineda frá Napoli og framherjinn Siyabonga Nomvete frá Kaizer Chiefs. Hodgson veit hins vegar að fleiri breytinga er þörf.
Framherjinn snjalli Roberto Muzzi var orðaður við Parma nýlega en þó hann vilji fara er hann enn til staðar og mun nýtast vel. Markmaðurinn Luigi Turci stendur enn á milli stanganna en fyrir framan hann eru Bertotto, Sottil, Gargo og Pieri. Hinn hraðskreiði Dani, Martin Jörgensen, ætlar að reyna að standa undir nafni vinstra megin á miðjunni en nýju mennirnir Dimitrios Nalitzis og Marcos Paolo sjá um miðsvæðið með Christian Diaz. Nomvete og Sosa keppa svo um að komast í framlínuna með Muzzi.
Liði Udinese gekk illa á síðasta tímabili og því er skrýtið að það byggi að mestu leyti á sömu mönnunum. Liðið átti í basli vegna meiðsla og þá kom berlega í ljós að breiddina skorti. Það eru samt 40 leikmenn í hópnum og þeir tala a.m.k. ellefu tungumál. Hodgson þarf að vera snjall til að skapa sannfærandi lið úr þeirri hlussu. Það er líklegt að Udinese verði í miðjujukkinu.