Loksins tókst þjálfaranum Terim að fá uppáhalds leikmanninn sinn frá Fiorentina og Inzaghi frá Juve til að taka við sendingum Portúgalans. En þrátt fyrir að Rui Costa sé kominn í liðið er Andrei Schevchenko enn mikilvægasti maður liðsins enda enginn smá framherji. Milan-menn ættu að gera harða atlögu að titlinum og stuðningsmennirnir eru sannfærðir um að þetta verði árið þeirra. Adriano Galliani sagði: “Við höfum ekki haft slíkt lið frá því að Marco Van Basten var hér.”
Vörnin virðist öflug hjá Terim en kannski þarf Tyrkinn að bíða eftir að Redondo nái fullum styrk og Donati falli vel inn í liðið. Það er slæmt að missa hinn unga Comandini til Atalanta en Boban vissi að hans tími væri liðinn þegar Rui Costa kom. Javi Moreno ætti að halda Inzaghi við efnið og Brocchi og Pirlo eru sterkar varaskeifur. Terim er sterkur þjálfari með þéttan efnivið í höndunum. Þetta gæti orðið gott ár hjá Milan.
Nú er bara að bíða og sjá.