Fylkismenn hafa sannað sig sem eitt af stóru liðunum á Íslandi. Toppbarátta tvö ár í röð, einn bikarmeistaratitill, nokkrir minni bikarar og ágætur árangur í Evrópukeppninni sannar það. Liðið olli þó nokkrum vonbrigðum í deildinni í sumar þar sem þeir voru í ansi vænlegri stöðu um mitt mót. Liðið vann þó sinn fyrsta stóra titil þegar liðið varð sigurvegari í Coca Cola bikarnum og fékk fyrir það eina milljón úr afreksmannasjóði.
Eftir tímabilið hætti Bjarni Jóhannsson þjálfun liðsins og hélt til Grindavíkur. Aðalsteinn Víglundsson tók við honum en hann mun stýra liðinu næstu þrjú árin. Aðalsteinn þekkir vel til liðsins enda hefur hann starfað í Árbænum áður. Þá var hann líka leikmaður Fylkis á sínum tíma. Einnig var gengið frá ráðningu Þóris Sigfússonar sem aðstoðarþjálfara.
Óvíst er hvaða breytingar munu verða á leikmannahópi Fylkis fyrir næsta tímabil en ljóst er Errol McFarlane og Pétur Björn verða ekki með liðinu. Ólafur Ingi Skúlason er á leiðinni til Arsenal og þá eru miklar líkur á því að Sævar Þór haldi líka út í atvinnumennsku. Sverrir Sverrisson og Þórhallur Dan Jóhannsson hafa skrifað undir nýja samninga við liðið sem er mikið fagnaðarefni fyrir Fylki. Tveir leikmenn eru með lausan samning, fyrirliðarnir Ómar og Finnur, en reiknað er með að þeir skrifi undir nýja samninga við félagið.
Það kom ekki á óvart að Ólafur Stígsson var kosinn besti leikmaður Fylkis á Uppskeruhátíðinni. Ólafur lék sérlega vel í allt sumar og er vel að titlinum kominn. Ólafur Ingi Skúlason var kosinn efnilegastur, en hann er farinn til Arsenal. Hátíðin fór vel fram, Aðalstjórn veitti nokkrum félagsmönnum silfurmerki og Jóni Magngeirssyni Gullmerki fyrir vel unnin störf í þágu félagsins á undanförnum árum.
Upplýsingar af Fylkir.com