Margir voru búnir að bóka það um mitt mót að Framarar ættu engan möguleika á því að bjarga sér frá falli. Staða liðsins var vægast sagt slæm. En liðið spilaði stórskemmtilegan og árangursríkan bolta seinni hluta mótsins og náðu að bjarga sér frá falli með sigri á Keflvíkingum í seinustu umferð. Liðið er byggt upp á ungum strákum sem hafa flestir spilað lengi saman.
Í fréttum Stöðvar 2 á mánudagskvöldið var sagt að Fram hafi verið rekið með 20 milljóna króna hagnaði. 9 mánaða uppgjör félagsins liggur ekki fyrir, hins vegar bendir allt til þess að félagið hafi verið rekið með hagnaði en nákvæm tala liggur ekki fyrir. Fjölmargir lögðu hönd á plóginn hjá félaginu s.s. sjálfboðaliðar. Fjöldi samstarfsaðila hafa lagt Fram lið með myndarlegum stuðningi. Þá hafa leikmenn sýnt mikinn skilning og tóku þeir á sig töluverða launalækkun sl. haust og því til viðbótar hafa sumir leikmenn fallið frá bónusgreiðslum vegna ársins 2001 eins og til dæmis Ásmundur
Framarar verða að öllum líkindum með sama leikmannahóp á næsta ári og þeir voru með í ár. Ágúst Gylfason skrifaði undir nýjan 2. ára samning við Fram í vikunni og eru það ánægjuleg tíðindi fyrir Framara en Ágúst er að mínu mati einn besti miðjumaður deildarinnar. Þá hefur markvörðurinn Gunnar Sigurðsson skrifað undir nýjan samning við liðið. Hann styrkti hópinn á síðasta tímabili með góðri innkomu.
Mikla athygli vakti að Fram var eina félagið í Símadeild karla sem sendi ekki trausts-yfirlýsingu á Eggert Magnússon. Í fréttatilkynningu frá Fram kemur fram að félagið mun ekki taka þátt í því að níða skóinn af forystu KSÍ á opinberum vettvangi, né sé það hlutverk Fram að halda uppi sérstökum vörnum fyrir KSÍ. Sterk forysta er fullfær um að verja sig sjálf.
Undir lok tímabilsins veittu Framarar viðurkenningar fyrir góðan árangur. Ásmundur og Valur Fannar náðu þeim merka áfanga að ná 100 leikjum. Daði fékk verðlaun fyrir afburða góða ástundun. Einnig voru veitt verðlaun fyrir frábæra frammistöðu og fékk Eggert Stefánsson þau enda blómstraði hann síðastliðið sumar og er undir smásjá Rosenborg og Ipswich. Að lokum var besti leikmaður Fram heiðraður og var markamaskínan Ásmundur Arnarsson valinn en hann varð í öðru sæti sem markahæsti maður deildarinnar í sumar.
Upplýsingar af heimasíðu Fram (Fram.is)