Knattspyrnufélag Akureyrar spilar meðal þeirra bestu á næstu leiktíð. Mikið slúður hefur verið í gangi í sambandi við mannabreytingar og fleira hjá liðinu. KA lenti í öðru sæti í 1.Deild karla á síðustu leiktíð og tryggðu sér það sæti með því að vinna Þrótt á Valbjarnarvelli í seinustu umferð.
Dean Martin var valinn leikmaður ársins hjá félaginu á Lokahófi knattspyrnudeildar. Martin gerði þriggja ára samning við KA fyrir hófið. Þessi snjalli knattspyrnumaður átti stóran hlut í velgengni KA í sumar. Kristján Sigurðsson var valinn sá efnilegasti. Samkvæmt heimasíðu KA var einnig kosið um markahæsta leikmann ársins og þar sigraði Hreinn Hringsson óvænt.
Þær sögusagnir fóru að ganga fyrir norðan að Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Keflvíkinga, væri á leið í KA. Þetta var víst slúður og eru Akureyringar ekki í neinum viðræðum við utanaðkomandi leikmenn. Stefnt væri að því að halda sama mannskap áfram og viðræður væru í gangi við þá leikmenn sem hafa lausa samninga en það eru Ásgeir, Kjartan, Ívar, Steingrímur, Steinn og Sverrir.
Framherjinn Hreinn Hringsson hefur verið orðaður við ýmis félög undanfarið. Þrjú úrvalsdeildarlið hafa haft samband við hann og er hann að skoða sín mál þessa dagana. Hann telur sjálfur að helmingslíkur séu á því að hann verði áfram hjá KA. Þó svo að eitt ár sé eftir af samningi Hreins við KA þá er ákvæði í samningnum um að hann sé uppsegjanlegur nú í haust og það ákvæði gæti Hreinn nýtt sér ef hann vill leita á önnur mið.
Upplýsingar voru fengnar af heimasíðu KA (http://est.is/ka/fot/)