Sverrir Sverrisson batt enda á þær sögusagnir að hann væri á leið frá Árbænum í dag, þegar hann skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Fylki. Margir spáðu því að Sverrir myndi fylgja félaga sínum Bjarna til Grindavíkur en nú er ljóst að hann verður næstu tvö árin í apppelsínugulum búningi. Sverrir hefur leikið síðustu tvö ár með félaginu og staðið sig mjög vel. Sverrir verður þó ekki áfram aðstoðarþjálfari því Þórir Sigfússon hefur tekið við því starfi. Þetta eykur möguleikana á því að stórstirnið Eyjólfur Sverrisson leyki með Fylkismönnum á næstu leiktíð. Hann er á heimleið frá Herthu Berlin og hefur hann víst mikinn áhuga á að spila með bróður sínum, Sverri.
Þórhallur Dan Jóhannsson skrifaði undir nýjan samning við félagið fyrir helgi og eru því aðeins tveir Fylkismenn nú án samnings, Ómar Valdimarsson og Finnur Kolbeinsson. Samkvæmt Fylkir.com er reiknað er með að þeir skrifi undir nýja samninga við félagið fyrir Uppskeruhátíðina sem verður næstu helgi. En þetta eru sannarlega gleðitíðindi fyrir Fylkismenn að Sverrir ætli að vera áfram.