Keflvíkingar þjálfaralausir Gústaf Adolf Björnsson hefur látið af störfum sem þjálfari Keflvíkinga í Símadeildinni. Þessi ákvörðun var tekin á stjórnarfundi í dag. Stjórn félagsins hefði gjarnan viljað njóta starfskrafta Gústafs áfram, en slæm fjárhagsstaða félagsins hefði einfaldlega ekki leyft það, þrátt fyrir góðan vilja Gústafs til þess að lækka við sig í launum. Fjárhagsrammi knattspyrnudeildarinnar fyrir næsta ár er það þröngur, að sú launalækkun sem Gústaf var tilbúinn til þess að taka á sig, var einfaldlega ekki nægileg.



Knattspyrnudeild Keflavíkur er nánast orðin gjaldþrota og í kjölfarið á því má búast við miklum breytingum á leikmannahópnum. Þrír reynslujaxlar, Gunnar Oddsson, Ragnar Steinarsson og Kristinn Guðbrandsson, hafa ákveðið að leggja skóna á hilluna. Auk þess eru miklar líkur á því að Zoran Daníel Ljubicic, Eysteinn Hauksson og Gestur Gylfason muni yfirgefa félagið. Haukur Ingi og Þórarinn Kristjánsson eru líklegast á leið í atvinnumennsku og svo eru Guðmundur Steinarsson og Gunnleifur Gunnleifsson í viðræðum við önnur félög samkvæmt áreiðanlegum heimildum gras.is. Það er því ljóst að Keflvíkingar munu tefla fram mjög breyttu liði á næstu leiktíð og eru miklar líkur á því að liðið verði í fallbaráttu. Keflvíkingar ætla að treysta á ungu strákana hjá liðinu og er efniviðurinn víst mikill á þeim bænum.