Knattspyrnusamband Íslands hefur sent frá sér fréttatilkynningu sem er birt á heimasíðu sambandsins, þar sem fram kemur að sambandið hafi ákveðið að falla frá kæru til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands, vegna fréttar sem birtist á visir.is. Blaðamaður DV sem skrifaði fréttina hefur beðist afsökunar. Hann upplýsti einnig nafn heimildamannsins sem samkvæmt fréttum Bylgjunnar reyndi að leika tveim skjöldum með því að skrifa einnig undir stuðningsyfirlýsinguna við Eggert.
Tilkynningin er svohljóðandi:
„Knattspyrnusamband Íslands hefur ákveðið að falla frá kæru til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands vegna fréttar sem birtist á Vísi.is á mánudagsmorgun og áður hefur verið fjallað um hér á heimasíðunni (ksi.is). Þetta er gert í kjölfar þess að blaðamaðurinn sem ritaði fréttina hefur beðist afsökunar á skrifum sínum og upplýst hver heimildarmaðurinn hafi verið. Heimildarmaðurinn veitti blm. ósannar upplýsingar."
—
Það vakti nokkra athygli að Framarar gáfu ekki út stuðningsyfirlýsingu við Eggert Magnússon. Stjórn Fram hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir útskýra af hverju þeir skrifuðu ekki undir stuðningsyfirlýsinguna við Eggert:
Í tilefni af birtingu yfirlýsingar fyrirsvarsmanna knattspyrnufélaganna í Símadeildinni vegna leiðréttingar á frétt á visir.is og um stuðning við Eggert Magnússon formann KSÍ, vill stjórn Fram Fótboltafélags Reykjavíkur hf. taka fram:
Þegar til formanns og varaformanns var leitað í gær varðandi yfirlýsingu fyrirsvarsmanna knattspyrnufélaganna í Símadeildinni, þá var framkvæmdastjóra KSÍ gerð grein fyrir því að Fram væri reiðubúið að staðfesta að forsvarsmenn Fram hefðu engan fund setið, þar sem rætt hefði verið um að steypa formanni KSÍ úr stóli.
Framkvæmdastjóra KSÍ nægði ekki að fá þessa staðfestingu, heldur fór fram á sérstaka stuðningsyfirlýsingu Fram við störf Eggerts Magnússonar formanns KSÍ. Fyrirsvarsmenn Fram svöruðu því til að í ljósi umræðunnar síðustu vikur, hefðu þeir ekki umboð til að gefa frá sér slíka yfirlýsingu. Hafa yrði samráð við stjórnarmenn. Þrátt fyrir þetta kaus KSÍ að senda út yfirlýsinguna án samþykkis Fram.
Framkvæmdastjóri Fram Fótboltafélags Reykjavíkur sendi út yfirlýsinguna á stjórnarmenn og eru viðbrögð stjórnar þau að rétt og eðlilegt hefði verið að staðfesta að Fram hefði engan þátt tekið í fundarhöldum um vantraust á Eggert Magnússon. Stjórnarmenn töldu mál þetta hins vegar ekkert tilefni til sérstakrar traustsyfirlýsingar. Eggert Magnússon væri réttkjörinn formaður KSÍ og hafi hlotið til þess starfs stuðning Fram. Að sama skapi var það skoðun stjórnarmanna að heldur væri ekki tilefni til þess að gefa út sérstaka vantraustsyfirlýsingu.
Fram hefur sínar skoðanir á störfum stjórnar og formanns KSÍ og mun framvegis eins og hingað til koma þeim skoðunum á framfæri á vettvangi knattspyrnuhreyfingarinnar. Mun Fram á þeim vettvangi ekki liggja á skoðunum sínum hvort sem félagið er sammála einstökum ákvörðunum eða ekki.
Fram mun ekki taka þátt í því að níða skóinn af forystu KSÍ á opinberum vettvangi, né er það hlutverk Fram að halda uppi sérstökum vörnum fyrir KSÍ. Sterk forysta er fullfær um að verja sig sjálf.
Reykjavík 16. október 2001
Stjórn Fram Fótboltafélags Reykjavíkur hf.