Bjarki Gunnlaugsson, atvinnuknattspyrnumaður hjá enska 1. deildarliðinu Preston, er á heimleið þar sem læknar hans hafa gefið upp alla von um að hann nái sér af meiðslum á mjöðm.
“Ég hitti sérfræðinginn sem skar mig upp á laugardag en hann reyndi að laga mjaðmarliðinn á mér. Skálin sem mjaðmarkúlan fellur ofaní var rifin en það gerðist líklegast rétt eftir að ég kom til Preston, en þá fékk ég mikið högg á mjöðmina. Aðgerðin var gerð í apríl og ég hef ekki tekið neinum framförum. Ég get hlaupið en get ekki framkvæmt neinar snöggar hreyfingar án þess að finna til,” sagði Bjarki í gær.
Breskt tryggingafélag fær nú öll gögn um Bjarka í hendurnar og þar munu þrír læknar fara yfir málið og sjálfur átti Bjarki von á að niðurstaða þeirra yrði sú að hann ætti ekki að geta leikið framar sem atvinnuknattspyrnumaður. “Þetta ferli tekur líklega um 2 mánuði en við ætlum okkur að flytja til Íslands í byrjun desember og setjumst að á höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað eru það mikil vonbrigði að fá það svart á hvítu að maður sé ekki líkamlega í stakk búin að leika sem atvinnumaður, en maður verður bara að taka því með jafnaðargeði,” sagði Bjarki.
Bjarki er 28 ára gamall og lék með ÍA áður en hann hóf atvinnumannaferil sinn með hollenska liðinu Feyenoord árið 1993. Frá Feyenoord fór hann til Nürnberg í Þýskalandi og síðan til Mannheim í sama landi. Árið 1997 var hann seldur til Molde í Norgi þar sem hann lék í eitt ár en þá gekk hann til liðs við Brann. Bjarki kom heim til Íslands og varð Íslands- og bikarmeistari með KR-ingum sumarið 1999 og um haustið gekk hann í raðir Preston þar sem hann hefur verið síðan.
(Af mbl.is)