Allt virðist í uppnámi hjá Knattspyrnusambandi Íslands eftir að Vísir.is sagðis hafa traustar heimildir fyrir því að formenn allra liða í Símadeildinni hafi komið saman á fund og náð samkomulagi um að koma Eggerti Magnússyni frá völdum á næsta ársþingi KSÍ sem fram fer snemma á næsta ári. Eggert hefur mikið verið á milli tannanna á fólki undanfarnar vikur vegna ferðar KSÍ til Köben um daginn en forystumenn sambandsins gistu í tæpa viku á einu flottasta hóteli Kaupmannahafnar. Úrslit leiksins voru svo ekkert til að bæta óánægjuna.
KSÍ gaf frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem fram kemur stuðningur við Eggert Magnússon og hans störf frá forystumönnum knattspyrnufélaga í Símadeildinni. Einnig kemur fram að Knattspyrnusambandið muni kæra frétt Vísis.is og í framhaldi af því munu þeir taka ákvörðun um frekari aðgerðir.
Fréttatilkynning KSÍ:
Í tilefni fréttar á heimasíðu Vísis.is í morgun viljum við forystumenn eftirtalinna félaga í Símadeild karla koma eftirfarandi á framfæri:
Forystumenn félaga í Símadeild karla lýsa yfir fullum stuðningi við Eggert Magnússon formann KSÍ og hans störf fyrir knattspyrnusambandið. Allar fréttir um annað eru tilbúningur og rógburður af verstu gerð.
Hannes Hauksson, Breiðablik,
Þórir Jónsson, FH,
Ámundi Halldórsson, Fylkir,
Jónas Þórhallsson, Grindavík,
Gunnar Sigurðsson, ÍA,
Ásmundur Friðriksson, ÍBV,
Vignir Þormóðsson, KA,
Jónas Kristinsson, KR,
Rúnar Arnarson, Keflavík,
Grímur Sæmundsen, Valur,
Árni Óðinsson, Þór.
Það skal tekið fram að KSÍ mun kæra fréttina á Vísi.is til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands og í framhaldi af því taka ákvörðun um hvort um frekari aðgerðir verður að ræða.