Munið þið eftir leikjunum þegar við vorum með þjálfara sem vissi að hann var með hóp af mönnum sem höfðu mjög takmarkaða knattspyrnuhæfileika og lagði upp úr að við spiluðum fastann bolta og létum andstæðinga okkar finna að þeir þyrftu að hafa fyrir hlutunm? Hversu oft talaði Mr. G ekki um það að mikilvægt væri að halda hreinu fyrsta hálftímann og gera andstæðingana óþolinmóða.
Í leiknum í gær létu íslensku leikmennirnir vaða yfir sig á skítugum skónum og aðeins Jóhannes Karl hafði hugrekki til að svara Dönunum sem léku sér að því að tuska íslensku leikmennina til.
Íslendingarnir virtust hafa villst inn á Parken og höfðu ekki hugmynd um hvað þeir voru að gera þarna. Það væri ágætt ef Íslensk erfðargreining gæti klónað nokkra Sigga Jóns gaura sem hefðu getað svarað Dönunum í sömu mynt.
Landsliðsmennirnir eru einfaldlega ekki það góðir að það sé hægt að búast við því að þeir geti náð fram úrslitum eða sloppið skammlaust frá leikjum með því að ætla að bíða bara og sjá hvað andstæðingurinn ætlar að gera.
Það er bara til ein íslensk leikaðferð og er hún í hávegum höfð í íslenku deildinni. Hún er kannski ekki sú skemmtilegsta en hún gengur út á að ná fram úrslitum sem er það eina sem skiptir máli þegar öllu er á botninn hvolft. Þessi aðferð heitir (fyrir þá sem ekki vita) “Drullist þið til að BERJAST” og skilaði hún t.d. einu stykki Íslandsmeistaratitli upp á Akranes í haust.