Willum Þór Þórsson skrifaði í gær undir fimm ára samning við KR. Willum er uppalinn KR-ingur og spilaði bæði handbolta og fótbolta hjá félaginu á sínum tíma. Aðalmarkmiðið hjá KR er að skapa stöðugleika í starfsumhverfi KR. Lengd samningsins gefur til kynna að Willum verður þjálfari liðsins næstu árin og eru þeir því að semja við hann með framtíðina í huga. Margir héldu að Bjarni Jóhannsson væri efstur á óskalista KR en nú er mjög líklegt að Bjarni skrifi undir nýjan samning við bikarmeistara Fylkis en samningaviðræður standa yfir.
Ný stefna virðist vera komin í gildi hjá KR og er búist við því að þeir fari að ráðum Fram, ÍA og ÍBV sem hafa byggt sín lið upp á heimamönnum með góðum árangri. Því lítur út fyrir það að KR muni ekki hirða bestu knattspyrnumenn landsins frá öðrum liðum eins og þeir hafa gert undanfarin ár. Willum hefur alltaf verið efstur á óskalista KR þó fyrrum þjálfari HJK Helsinki hafi verið orðaður við liðið. Willum hefur undanfarin tvö ár hoppað upp um tvær deildir með Haukum sem spila í 1.Deild á næstu leiktíð. Að mínu mati er hann besti kosturinn og því tel ég KR-inga hafa gert rétt. Það eru nýjir tímar framundan hjá Vesturbæingum sem spennandi verður að fylgjast með.