LANDSLEIKUR GEGN DÖNUM FRAMUNDAN
Atli Eðvaldsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, hefur valið átján manna hóp sem mætir Dönum á Parken hinn 6. október í undankeppni HM. Rúnar Kristinsson og Brynjar Gunnarsson koma inn í hópinn á ný, en þeir voru frá vegna meiðsla í leikjunum gegn Tékkum og N-Írum. Þeir koma í stað Jóhanns Guðmundssonar og Ólafs Arnar Bjarnasonar. En sést ekkert í nafn Guðna Bergssonar…
—
NÆST BESTI FRAMHERJINN VERÐUR ÁFRAM HJÁ ÍBV
Á ÍBV.is kemur fram að knattspyrnudeild félagsins hafi gert samkomulag við sóknarmanninn Tómas Inga Tómasson, um að hann leiki áfram með liðinu á næstu leiktíð. Tómas Ingi mun reyndar búa í Danmörku í vetur, þar sem fjölskylda hans er staðsett. Tómas stóð sig vel é Eyjum í sumar en hann var í öðru sæti í kosningunni hér á Huga á besta sóknarmanni Símadeildarinnar.
—
ORRI FÆR EKKI SAMNING
Efnilegasti leikmaður Þórs, Orri Freyr Hjaltalín, hefur verið við æfingar hjá norska félaginu Tromsö. Nú er það ljóst að orri fær ekki samning frá liðinu sem stendur höllum fæti í norsku úrvalsdeildinni, er í næstneðsta sæti þegar fjórar umferðir eru eftir.
—
EGGERT Á FARANDSFÆTI
Ipswich Town, ætlar að fá Eggert Stefánsson, leikmann hjá Fram og u-21 árs landsliðinu, til reynslu í næsta mánuði. Fjölmörg félög hafa sýnt varnarmanninum áhuga en búist er við að hann æfi einnig með Rosenborg. Eggert var í öðru sæti í X-2001 hér á Huga yfir efnilegustu leikmenn Símadeildarinnar.
—
U17 TAPAÐI
Íslenska U-17 landsliðið í knattspyrnu, skipað leikmönnum 17 ára og yngri, tapaði 0-2 fyrir Pólverjum í dag í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu sem fer fram í Eistlandi. Íslendingar hafa þrjú stig í sínum riðli eftir tvo leiki en liðið vann Eistland í fyrstu umferð. Pólverjar eru efstir með 6 stig en þeir hafa unnið báða leiki sína.
—
Af mbl.is: BIKARÚRSLITALEIKUR Á MORGUN
Fylkir mætir KA í úrslitum í Bikarkeppni KSÍ á Laugardalsvelli á morgun kl.14:00. Bjarni Jóhannesson, þjálfari Fylkis, var sammála því að meira væri í húfi fyrir Árbæjarliðið í úrslitaleik bikarkeppninnar en lið KA þar sem markmið Fylkis á Íslandsmótinu hefðu ekki náðst - og ekki skemmdi fyrir að Fylkir væri í fyrsta sinn í sögunni í þessum sporum. Fróðlegt verður að fylgjast með þessum leik á morgun.