Fylkir leikur til úrslita gegn KA í Coca Cola bikarnum laugardaginn 29. september. Það kom í ljós í dag þegar liðið lagði ÍA 0-2 á Akranesi. Liðin léku í deildinni á mánudag og þar voru úrslitin á annan veg því Akranes vann leikinn 3-0. Allt annað var að sjá til Fylkis-liðsins í þessum leik þrátt fyrir að ÍA hafi ekki verið lakari aðilinn. Fyrra markið var furðulegt, Fyrra Theodór Óskarsson komst inn í vítateiginn vinstra megin, eftir skalla frá markamaskínunni Steingrími Jóhannessyni. Boltinn skoppaði í sköflunginn á Theodóri og þaðan hrökk boltinn framhjá Ólafi Þór markverði ÍA sem var ekki í jafnvægi. Í síðara markinu slapp Pétur Björn úr gæslu varnarmannsins gríðarsterka Gunnlaugs Jónssonar og skoraði af stuttu færi.
Það er alveg ljóst að nýtt nafn verður skráð á bikarinn en Fylkir hefur aldrei leikið til úrslita, og KA aðeins einu sinni. Ólafur Þórðarsson þjálfari heimamanna, var ósáttur við úrslitin. Hann sagði að Skagamenn hefðu yfirspilað Fylkismenn í þessum leik, og það hefði verið ótrúlegur klaufaskapur hjá sínum mönnum að nýta ekki þau marktækifæri sem liðið fékk. Allt annað hljóð var í Bjarna Jóhannssyni í viðtali við mbl.is: “Þetta er nýr kafli í sögu Fylkis” sagði þjálfari Árbæinga brosandi.