Tekið af skessuhorn.is:
Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) hefur sektað ÍA um 348 þúsund krónur vegna þess að forráðamönnum ÍA láðist að tikynna alla þá leikmenn sem settir voru á skýrslu í seinni leik ÍA og Clüb Brugge í Evrópukeppninni. Málavextir eru þeir að mánuði fyrir fyrri leikinn sendir UEFA eyðublað sem ÍA er ætlað að fylla út með nöfnum þeirra leikmanna sem ÍA hyggst nota í Evrópukeppninni. Tuttugu leikmenn eru skráðir á eyðublaðið og það sent til UEFA.
Þessir leikmenn voru síðan settir á leikskýrslu útí Belgíu. Síðan fyrir seinni leikinn gerir Ólafur Þórðarson, þjálfari ÍA, nokkrar breytingar á liðinu frá fyrri leiknum vegna meiðsla og leikbanna. Inní hópinn koma þeir Jón Þór Hauksson og Elínbergur Sveinsson og taka sæti þeirra manna sem ekki voru leikhæfir. Jón og Elínbergur voru hinsvegar ekki á þeim lista sem upphaflega hafði verið sendur til UEFA og voru því ólöglegir. Engu breytir þó að þeir hafi hvorugur komið við sögu í leiknum. Reglugerð UEFA tekur skýrt fram að við svona brotum skuli lið sektuð. Gunnar Sigurðsson, formaður rekstrarfélags meistaraflokks ÍA, segir að engin leið sé að áfrýja þessum dómi. “Þetta er því miður staðreynd málsins. Ástæður fyrir því að svona hlutir gerast skrifast einfaldlega á reynsluleysi og hreinlega á aulaskap af okkar hálfu” Gunnar segist vonast til að þessir peningar komi ekki til með að snerta rekstraafkomu félagsins of mikið en eins og flestir vita var fjárhagur knattspyrnudeildar ÍA mikið í umræðunni fyrr á árinu